Fréttir allt

Yfirlýsing vegna ákvörðunar um eingreiðslu til foreldra langveikra barna í verndarsóttkví í Covid-19 faraldrinum

Þann 31. mars síðastliðinn sendi Umhyggja frá sér áskorun til stjórnvalda vegna leiðréttingar tekjutaps foreldra langveikra barna sem hafa þurft að vera í verndarsóttkví vegna Covid-19 faraldursins. Þar var þess krafist að þessum hópi væru tryggðar launagreiðslur á meðan á sóttkví stæði, eins og reglugerð sem samþykkt var 21. mars gerði ráð fyrir til handa þeim sem fóru í sóttkví í kjölfar utanlandsferða eða þess að hafa umgengist smitaðan einstakling.Í gær voru samþykktar og birtar á vef félagsmálaráðuneytis breytingar á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Þar kemur fram að foreldrar langveikra barna sem hafa verið heima með barni vegna undirliggjandi vanda þess, sem landlæknir hefur skilgreint í áhættuhópi fyrir alvarlegri sýkingu vegna Covid-19, geti sótt um eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum, fyrir einn mánuð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að setja þetta í samhengi eru fullar umönnunargreiðslur í 1. flokki, 100% (hæsta umönnunarflokki) kr. 192.433, þar af eru 25% kr. 48.108. Umhyggja lýsir yfir vonbrigðum vegna þessarar niðurstöðu.

Aðalfundur Umhyggju, framboð og skýrsla stjórnar

Við minnum á aðalfund Umhyggju sem haldinn verður þriðjudaginn 9. júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík. Við biðjum fólk að skrá sig svo áætla megi fjölda og vekjum auk þess athygli á skýrslu stjórnar sem nú er aðgengileg á vefsíðunni. Tvö stjórnarsæti eru laus og tvö framboð bárust innan framboðsfrestsins.

Aðalfundur Umhyggju færður til 9. júní

Ákveðið hefur verið að færa áður auglýstan aðalfundi Umhyggju, sem átti að vera 26.maí, fram til 9. júní kl.17:00. Fundurinn verður á Grand Hotel Reykjavík, alls geta 45 manns sótt fundinn og gerir rýmið ráð fyrir að hægt sé að hafa 2 metra fjarlægð auk þess sem ítrustu sóttvarna verður gætt. Fundinum verður streymt, en athugið að ekki er hægt að greiða atkvæði nema mæta á staðinn. Óskað er eftir að þeir félagsmenn sem hyggjast sitja fundinn skrái sig á vefsíðu Umhyggju svo hægt sé að áætla fjölda og gera ráðstafanir vegan kosningar verði aðsókn mikil. Allar nánari upplýsingar um streymið verða birtar á vefsíðu þegar nær dregur.

Langveik eða fötluð börn á tímum Covid-19 faraldurs

Umhyggja, ásamt Greiningar-og ráðgjafarstöð ríkisins, Landssamtökunum Þroskahjálp og Einhverfusamtökunum, hefur sent frá sér grein er varðar fötluð og/eða langveik börn á tímum Covid-19 faraldurs. Er þar lagt til að sveitarfélög og aðrir þjónustuveitendur loki síður, eða stytti lokunartíma úrræða sinna í sumar, til að viðhalda færni barna sem á því þurfa að halda, og til að létta undir með viðvarandi þungu álagi á foreldra um þessar mundir. Einnig mætti tryggja börnum á grunnskólaaldri viðeigandi sumarúrræði og námskeið til að veita þeim kost á virkni og samfélagslegri þátttöku.

Forvarnarsamtökin Þú skiptir máli og Tónasmiðjan styrkja Umhyggju

Forvarnarsamtökin ÞÚ skiptir máli og Tónasmiðjan skapandi starf fyrir ungt fólk hafa undanfarna tvo mánuði verið með forvarnar- og fjáröflunarverkefni í gangi til styrktar Umhyggju. Upphaflega stóð til að halda styrktartónleika í lok maí en vegna Covid-19 þurfti því miður að aflýsa þeim. Þau dóu þó ekki ráðalaus og fundu aðra leið til að rétta Umhyggju hjálparhönd, í gegnum framleiðslu og sölu á HETJU bolum. Alls söfnuðust heilar 333.000 krónur og var Umhyggju færður sá styrkur nú í vikunni.

Góð ráð til að takast við áskoranir Covid-19 faraldursins og áhrif hans á börn

Berglind Jóna Jensdóttir, sálfræðingur Umhyggjur, hefur tekið saman góð ráð til að bregðast við þeirri áskorun sem Covid-19 er og þeim áhrifum sem ástandið kann að hafa á börnin okkar. Við hvetjum ykkur til að lesa hann!

Gleðilegt sumar

Við hjá Umhyggju óskum ykkur öllum gleðilegs sumars. Megi sumarið fara um okkur öll mjúkum, sólríkum og hlýjum höndum eftir átakamikinn vetur.

Frá Almannaheillum vegna Covid-19

Almannaheill, regnhlífarsamtök félagasamtaka þriðja geirans, sem Umhyggja er aðili að, hafa beðið okkur um að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri vegna Covid-19 faraldursins.

Umhyggja minnir á opinn síma og sálfræðiráðgjöf

Við hjá Umhyggju minnum á að síminn er opinn milli kl.9 og 16 alla virka daga og hvetjum fólk til að hafa samband símleiðis, 552-4242 eða í gegnum tölvupóst, info@umhyggja.is, hafi það spurningar eða vanti ráðgjöf. Eins minnum við á að sálfræðingar okkar sinna sálfræðiviðtölum, bæði í gegnum fjarfundarbúnað sem og á skrifstofu.

Ráð til foreldra vegna Covid-19

Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið og Embætti landlæknis hafa gefið út góð ráð til foreldra vegna COVID-faraldursins, í samvinnu við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO) og UNICEF. Við hvetjum alla til að skoða, en ráðin er að finna á 35 mismunandi tungumálum.