Réttindi

Foreldrar langveikra barna lýsa því gjarnan sem frumskógi að afla upplýsinga um réttindi í tengslum við veikindi barns. Umhyggja hefur tekið saman ítarlegar upplýsingar varðandi réttindamál langveikra barna, með þeim tilgangi að efnið sé aðgengilegt og skiljanlegt. Hér má finna upplýsingar um helstu lög og reglur sem eiga við að hverju sinni, útskýringar á hugtökum og hlekki inn á vefslóðir viðeigandi stofnanna. Ef óskað er eftir frekari aðstoð við réttindamál þá býður Umhyggja foreldrum langveikra barna, sem eru í aðildarfélögum Umhyggju, upp á ókeypis lögfræðiráðgjöf, sjá nánar hér.

Farsældarlögin

Þann 1. janúar 2022 tóku gildi lög nr. 86/2022 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Innleiðingartímabil laganna er skilgreint þrjú til fimm ár. Markmið laganna er að stuðla að farsæld barna og að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Farsæld barns 

Í lögunum er farsæld barns skilgreint sem aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska á heilsu á eigin forsendum til framtíðar.

Samþætt þjónusta

Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni. Farsældarlögunum er ætlað að veita samstarfi vegna þjónustu við börn skýrari farveg og að samstarfið sé án hindrana.

Skyldur

Í farsældarlögunum er þjónustuveitandi sá sem veitir farsældarþjónustu, hvort sem hann er hluti af stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélags eða einkaaðili sem veitir slíka þjónustu á vegum ríkis eða sveitarfélags. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd. 

Þá er einnig fjallað um aðila sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna en eru ekki á vegum ríkis eða sveitarfélags s.s. sjálfstætt starfandi sérfræðingar,  íþrótta-, lista og æskulýðsstarf, annað tómstundastarf og frjáls félagasamtök.

 • Ofangreindir aðilar bera skyldu til þess að fylgjast með velferð og farsæld barna sem og að leiðbeina foreldrum og barni um tengiliði og samþættingu þjónustu. Ofangreindir aðilar skulu bregðast við þörf fyrir þjónustu og hafa samráð sín á milli til að veita góða þjónustu við hæfi.

Fyrstu skref samþættingar

Samþætting þjónustu getur hafist með tvennum hætti:

1. Þjónustuveitendur og þeir sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna verða þess áskynja að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu. Ofangreindir aðilar geta einnig miðlað upplýsingum beint til tengiliðar óski foreldrar/barn eftir því sérstaklega.
2. Foreldrar og/eða börn óska sjálf eftir samþættingu.

 •  Skilyrði fyrir samþættingu er að foreldrar og eftir atvikum barn óski eftir slíkri þjónustu með því setja fram beiðni um samþættingu á þar til gerðu eyðublaði.

Stigskipting þjónustu

Í lögunum er þjónusta í þágu farsældar barna veitt á þremur þjónustustigum. Farsældarþjónusta skal skilgreind með tilliti til þess hvaða stigi hún tilheyrir.

 • Fyrsta stig þjónustu

   Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldum. Þessu stigi tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur með það að markmiði að styðja við farsæld barns. Snemmtækur stuðningur er veittur í samræmi við frummat á þörfum barns og honum fylgt eftir á markvissan hátt.

 • Annað stig þjónustu
  Öðru stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur með það að markmiði að tryggja farsæld barns. Markvissari stuðningur er veittur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns. Leitast skal við að veita markvissari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.

 • Þriðja stig þjónustu
   
  Þriðja stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur með það að markmiði að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Sérhæfðari stuðningur er veittur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Leitast skal við að veita sérhæfðari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.

Tengiliður

Tengiliður tekur við beiðni um samþættingu sem hefur verið sett fram á þar til gerðu eyðublaði. Tengiliðum berast beiðnir annaðhvort beint frá foreldri/barni eða frá þjónustuveitendum/þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns ( ath. þó eftir að foreldri/barn skrifar undir "beiðni um miðlun á upplýsingum").

 • Hver er tengiliður?
  -
  Starfsmenn heilsugæslu: Á meðgöngu og frá fræðingu fram að skólagöngu.
  Starfsmenn skóla: Fyrir börn í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
  - Starfsmenn félagsþjónustunnar: Fyrir börn í sérstökum aðstæðum t.d. börn sem ekki stunda skólagöngu.

 • Hvað gerir tengiliður?
  - Tekur við beiðni um samþættingu.
  - Skipuleggur og fylgir eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu.
  - kemur máli í hendur málstjóra eftir atvikum.

Málstjóri

Málstjórar taka við málum um samþættingu þjónustu ef ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma.

 • Sveitarfélagið þar sem barn á lögheimili tilnefnir málstjóra í þágu farsældar barnsins.
 • Málstjórar starfa við félagsþjóustu sveitarfélagsins eða á öðrum sviðum sem samræmast þörfum barnsins.
 • Málstjóri má ekki vera tengdur barni eða foreldrum þess með þeim hætti sem mundi leiða til vanhæfis samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

Málstjóri skal hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og sinna eftirfarandi hlutverkum:

 1. Veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar
  barns.
 2. Aðstoða við að tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns.
 3. Bera ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og að stýra stuðningsteymi.
 4. Fylgja því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.
 5. Veita þeim sem sitja í stuðningsteymi ráðgjöf og upplýsingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns.
Athugið að áður en málstjóri getur veitt þjónustu samkvæmt lögunum verður að liggja fyrir beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu.

Stuðningsáætlun og stuðningsteymi

Eitt af hlutverkum málstjóra er að stofna stuðningsteymi þar sem fulltrúar þjónustuveitanda sem veita barni þjónustu, eiga samstarf um samþættingu þjónustunnar. Heimilt er að bjóða þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns að taka sæti í stuðningsteymi ef þörf krefur. Stuðningsteymið skal útbúa skriflega stuðningsáætlun fyrir barnið, þar sem þjónusta sem er veitt í þágu farsældar barnsins er samþætt. 

Í stuðningsáætlun skal eftir atvikum geta um:

 • Mat og/eða greiningu á þörfum barns.
 • Markmið með þjónustu og samþættingu einstakra þátta hennar á öllum þjónustustigum.
 • Hlutverk hvers þjónustuveitanda og annarra eftir atvikum.
 • Hvernig árangur verði metinn.
 • Tímabil sem áætlun er ætlað að vara.

Stuðningsteymi hefur reglubundna samvinnu um framkvæmd stuðningsáætlunar þann tíma sem áætlun varir. Hana ber að endurmeta og endurnýja eftir því sem þörf krefur. Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.
Ef stuðningsteymi lýkur störfum án þess að gera stuðningsáætlun skal tilkynna foreldrum barns og tengilið niðurstöðu teymisins og veita samhliða rökstuðning fyrir henni. Foreldri getur beint kvörtun yfir niðurstöðu stuðningsteymis um að ljúka störfum án stuðningsáætlunar til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Hér má nálgast farsældarlögin nr. 86/2021.
Hér má nálgast reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.
Hér má nálgast skýringarmynd af ferli samþættingu þjónustu.

Framlenging fæðingarorlofs

Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Sótt er um framlengingu fæðingarorlofs hjá Vinnumálastofnun. Mikilvægt er að skila inn vottorði frá sérfræðilækni þar sem rökstudd er þörfin fyrir lengingunni og skal Vinnumálastofnun berast frumritið af vottorðinu. Vinnumála stofnun metur hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilit að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Hér má skila inn gögnum til Vinnumálastofnunar.
Hér má sjá nánari upplýsingar inn á vef Vinnumálastofnunar.
Hér má nálgast lög um fæðingar- og foreldraorlof nr.95/2000, sjá 19.gr.

Veikindaréttur á vinnumarkaði 

 Kjarasamningar vinnumarkaðarins kveða á um að foreldri sé heimilt að verja 2 dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar börnum sínum sem eru undir 13 ára aldri, fyrstu 6 mánuði í starfi. Eftir 6 mánuði í starfi verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Foreldri heldur dagvinnulaunum sínum, sem og vaktaálagi eða eftirvinnuálagi þar sem það á við. Sama á við um börn undir 16 ára aldri þegar veikindi eru það alvarleg að þau leiði til sjúkrahússvistar í að minnsta kosti einn dag.
Þegar veikindaréttur á vinnumarkaði klárast er næsta skref að skoða rétt til greiðslna úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga.

 • Ekki á vinnumarkaði? Sé foreldri ekki á vinnumarkaði skal skoða réttinn til umönnunar-og foreldragreiðslna, sjá nánar hér að neðan.

Sjúkra-og styrktarsjóðir stéttarfélaga

Til að eiga rétt á greiðslum úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga þarf fyrst að fullnýta réttindi skv. kjarasamningum við vinnuveitanda, sem og að hafa greitt stéttarfélagsgjöld. Hér að neðan getur þú valið þitt stéttarfélag og fengið frekari upplýsingar um úthlutunarreglur félagsins og sótt um styrkina sem eru í boði. 

 • Í hvaða félagi ert þú?
  Með því að ýta á þitt bandalag eða stéttarfélag hér að neðan, færðu nánari upplýsingar.

BHM

BHM starfrækir bæði sjúkra- og styrktarsjóð. Sjúkrasjóðurinn er fyrir félagsmenn á almennum
vinnumarkaði og styrktarsjóðurinn er fyrir félagsmenn á opinberum vinnumarkaði. Sjá aðildarfélög BHM hér.

Sjúkrasjóður BHM
Greiddir eru sjúkradagpeningar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu sem nema 80% af meðallaunum sl.
4 mánuði fyrir óvinnufærni, að hámarki 713.000 krónur. Greitt er í 3 mánuði vegna veikinda barns.

Hér má finna nánari upplýsingar inn á heimasíðu BHM.
Hér má finna úthlutunarreglur sjúkrasjóðsins, sjá grein 4.c.
Hér má sækja um sjúkradagpeninga inn á mínum síðum hjá BHM.

Styrktarsjóður BHM
Greiddir eru sjúkradagpeningar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu sem nema 80% af meðallaunum sl.
4 mánuði fyrir óvinnufærni, að hámarki 713.000 krónur. Greitt er í allt að 4 mánuði vegna veikinda
barns. Sjóðsstjórn metur hvert einstakt tilvik fyrir sig.

Hér má finna nánari upplýsingar inn á heimasíðu BHM.
Hér má finna úthlutunarreglur styrktarsjóðsins, sjá grein 4.g.
Hér má sækja um sjúkradagpeninga inn á mínum síðum BHM. 

ASÍ

ASÍ hefur sett viðmiðunarreglugerð fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaga ASÍ. 
Sjúkrasjóðir aðildarfélaga ASÍ skulu greiða dagpeninga í 90daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.

Hér má nálgast viðmiðunarreglur ASÍ fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaganna , sjá grein 12.2.
Hér má nálgast aðildarfélög ASÍ.
Athugið að einstaka stéttarfélög innan ASÍ kunna að veita rýmri rétt. Ýttu á þennan hlekk til að velja þitt stéttarfélag https://www.asi.is/um-asi/skipulag/adildarfelog.

BSBR

BSBR starfrækir styrktarsjóð þar sem heimilt er að greiða dagpeninga í allt að 60 daga vegna veikinda barna sem er undir 18 ára. Sjóðsfélagi þarf að hafa verið aðili að sjóðnum í eitt ár til að geta sótt um úthlutun. Dagpeningar eru 80% af meðal heildarlaunum síðustu 12 mánuði. 

Hér má finna nánari upplýsingar inn á heimasíðu BSBR.
Hér má nálgast úthlutunarreglur styrktarsjóðs BSBR, sjá grein 3.d.
Hér má sækja um inn á mínum síðum BSBR.
Hér má nálgast aðildarfélög BSBR.

Sjúkrasjóður Kennarasambands Íslands greiðir sjúkradagpeninga til sjóðfélaga sem verður fyrir tekjuskerðingu
sem er afleiðing alvarlegra langtímaveikinda maka eða barna. Veikindin verða að hafa staðið í a.m.k. þrjá mánuði. Fjárhæð sjúkradagpeninga tekur mið af meðalstarfshlutfalli síðustu 12 mánuði og eru greiddir í allt að sex mánuði. Óskert fjárhæð dagpeninga er 16.000 kr. á dag. 

Hér má nálgast úthlutunarreglur sjúkrasjóðs KÍ, sjá grein 4.2 varðandi veikindi barns og sjá grein 4.3. og grein 4.4. varðandi upphæð sjúkradagpeninga.
Hér má sækja um inn á mínum síðum hjá KÍ.
Hér má nálgast aðildarfélög KÍ.

VFÍ

Verkfræðingafélag Íslands starfrækir sjúkrasjóð og styrktarsjóð. Sjúkrasjóðurinn er fyrir sjóðsfélaga sem starfa á almennum vinnumarkaði og styrktarsjóðurinn er fyrir sjóðsfélaga sem starfa á opinberum vinnumarkaði. 

Sjúkrasjóður VFÍ 
Greiddir eru dagpeningar í allt að 60 daga vegna langvarandi veikinda barns. Upphæð dagpeninga er 80% af grunni inngreiðslna viðkomandi sjóðsfélaga í sjóðinn og skal miðað við meðal innborgun síðustu 12 mánuði áður en réttur til dagpeninga skapaðist, þó ekki hærri fjárhæð en 1 milljón krónur á mánuði.

Hér má nálgast nánari upplýsingar inn á heimasíðu VFÍ.
Hér má sjá úthlutunarreglur sjúkrasjóðsins, sjá grein 4.b. um upphæð dagpeninga og grein 4.c. um veikindi barns.
Hér má sækja um inn á mínum síðum VFÍ.

Styrktarsjóður
Greiddir eru dagpeningar í allt að 60 daga vegna langvarandi veikinda barns. Upphæð dagpeninga er 80% af grunni inngreiðslna viðkomandi sjóðsfélaga í sjóðinn og skal miða við meðal innborgun síðustu 12 mánuði áður en réttur til dagpeninga skapaðist, þó ekki hærri fjárhæð en 800 þúsund krónur á mánuði.

Hér má nálgast nánari uppplýsingar inn á heimasíðu VFÍ.
Hér má sjá úthlutunarreglur styrktarsjóðsins, sjá grein 4.b. um upphæð dagpeninga og grein 4.c. um veikinda barns.
Hér má sækja um inn á mínum síðum VFÍ.

VR

Félagsmenn VR eiga rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði VR vegna barna sinna undir 18 ára aldri í allt að 210 daga/7mánuði, á hverju 12 mánaða tímabili. Upphæðin nemur 80% af meðallaunum síðustu sex mánuði.

Hér má nálgast frekari upplýsingar inn á heimasíðu VR.
Hér má nálgast frekar upplýsingar um útreikning á sjúkradagpeningum.
Hér má nálgast úthlutunarreglur sjúkrasjóðs VR, sjá grein 2.7. um veikindi barns.
Hér má sækja um inn á mínum síðum hjá VR.

 • Til upplýsinga þá tilheyrir VR bandalagi ASÍ, en sökum fjölda félagsmanna stéttarfélagsins eru réttindi sjúkrasjóðs VR listuð hér upp sérstaklega.

Félög utan bandalaga

Hjúkrunarfélag Íslands

 Hjúkrunarfélag Íslands starfrækir styrktarsjóð sem félagsmenn öðlast rétt úr þegar greiðslur hafa borist í 6 mánuði, þar af 3 mánuði samfellt áður en atburðir sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum átti sér stað. Greiðslur eru mismunandi eftir því hvort sjóðsfélagi er á opinberum eða almennum vinnumarkaði.

Sjóðsfélagar á opinberum vinnumarkaði
Mánaðargreiðsla miðast við starfshlutfall við upphaf veikinda. Full mánaðargreiðsla er kr. 400.000 sem er kr. 18.459 fyrir hvern virkan dag eða 21.67 daga. Hægt er að sækja um dagpeninga til sjóðsstjórnar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu í kjölfar langvinnra veikinda barns (þrír mánuðir eða lengur) í allt að sex mánuði samanlagt. Með barni í reglum þessum er auk kynbarns, kjörbarns og fósturbarns átt við stjúpbarn og barnabarn sem býr á heimili sjóðsfélaga eða þarfnast greinilega umönnunar sjóðsfélaga. Dagpeningar eru einungis veittir vegna barna undir 18 ára aldri. Með langtímaveikindum er átt við veikindi sem vara samfellt lengur en í 30 almanaksdaga.

Hér má sækja um inn á mínum síðum hjúkrunarfélagsins.
Hér má sjá úthlutunarreglur sjóðsins inn á heimasíðu hjúkrunarfélagsins, sjá grein 1, um upphæð dagpeninga og grein 1.b, um veikinda barns.

Sjóðsfélagar á almennum vinnumarkaði
Upphæð dagpeninga nemur 80% af grunni inngreiðslna sjóðsfélaga í sjóðinn síðustu sex mánuði áður en launagreiðslur féllu niður, að hámarki 610.000 krónur á mánuði (launatekjur 762.500 krónur). Hægt er að sækja um dagpeninga til sjóðsstjórnar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu í kjölfar langvinnra veikinda barns í allt að sex mánuði samanlagt. Með barni í reglum þessum er auk kynbarns, kjörbarns og fósturbarns átt við stjúpbarn og barnabarn sem býr á heimili sjóðsfélaga eða þarfnast greinilega umönnunar sjóðsfélaga. Dagpeningar eru einungis veittir vegna barna undir 18 ára aldri. Með langtímaveikindum er átt við veikindi sem vara samfellt lengur en í 30 almanaksdaga.

Hér má sækja um inn á mínum síðum hjúkrunarfélagsins.
Hér má sjá úthlutunarreglur inn á heimasíðu hjúkrunarfélagsins, sjá grein 2.b. um upphæð dagpeninga og grein 2.c. um veikindi barns.

 Læknafélag Íslands

Læknafélag Íslands starfrækir fjölskyldu- og styrktarsjóð lækna (FOSL) sem m.a. veitir félagsmönnum fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum. Réttur sjóðsfélaga til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna sjóðsfélaga í samtals 6 mánuði og þar af í 3 mánuði samfellt áður en atvik, sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum, átti sér stað. Sjóðurinn greiðir styrk sem nemur 80% af grunni inngreiðslna sjóðsfélaga í sjóðinn síðustu 12 mánuði áður en greiðslur féllu niður, að hámarki 1.200.000 krónur,- á mánuði, í 3 mánuði. Hvert samfellt greiðslutímabil er að jafnaði 3 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili. Sá sem hefur fullnýtt þann rétt öðlast hann að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 3 mánuði. Sjóðsfélagi sem er sjálfstætt starfandi hefur rétt til greiðslu veikindastyrks sem um launþega væri að ræða.

Hér má sækja um styrk inn á innra vef læknafélags Íslands.
Hér má nálgast úthlutunarreglur fjölskyldu- og styrktarsjóðsins, sjá grein 3.3, um langvarandi veikinda ættingja.

Samband stjórnendafélaga

STF starfrækir sjúkrasjóð sem m.a. greiðir bætur til félagsmanna í veikinda og slysatilfellum. Réttur til sjúkradagpeninga vegna veikinda barna fer eftir ávinnslurétti sjóðsfélaga í sjóðnum, þó er greitt að hámarki í 90 daga vegna veikinda barns á hverju 12 mánaða tímabili.  Upphæð sjúkradagpeninga er 80% af meðaltalslaunum síðustu 12 mánaða fyrir veikindi.  Einnig er hægt að sækja styrk vegna mjög alvarlegra eða langvarandi veikinda barna, að upphæð 366.000 krónur á hverju 12 mánaða tímabili. Ekki er hægt að sækja bæði um dagpeningagreiðslur og eingreiðslustyrk.

Hér má finna úthlutunarreglur sjúkrasjóðsins, sjá grein 7.6.1. um upphæð dagpeninga, sjá grein 9 um veikindi barns og sjá grein 7.2. um ávinnslurétt til dagpeninga.
Hér má sækja um inn á mínum síðum hjá STF.

Félag skipstjórnarmanna

Félag skipstjórnarmanna starfækir styrktarsjóð FS. Sjóðstjórn metur hvort greiða skuli dagpeninga í veikinda- og slysaforföllum barna innan 18 ára. Dagpeningar greiðast að hámarki í 90 daga frá þeim tíma sem sjóðfélagi hefur verið launalaus í a.m.k. 10 daga. Komi til greiðsluskyldu er greitt frá fyrsta degi launamissisins. Sjóðstjórn ákveður upphæð dagpeninga.

Hér má sjá úthlutunarreglur sjóðsins, sjá grein 9.5. um veikindi barns.
Hér má sækja um inn á mínum síðum hjá FS.

 • Þegar réttindi úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga hafa verið fullnýtt er næsta skref að skoða réttinn til umönnunar- og foreldragreiðslna
 • Ertu ekki viss um þín réttindi? Endilega hafðu samband við okkur og við aðstoðum þig.

Umönnunarmat, umönnunargreiðslur og umönnunarkort

Tryggingastofnun sér um umönnunarmat, umönnunargreiðslur og umönnunarkort.

Umönnunarmat

Fjárhæðir umönnunargreiðslna byggjast á umönnunarmati sem Tryggingastofnum framkvæmir en framkvæmdin byggir á flokkunarkerfi sem er sett fram í reglugerð nr. 504/1997. Hér má nálgast reglugerðina.
 Í 5. gr. reglugerðarinnar má sjá flokka sem byggja á erfiðleikum barns, gæslu og þeim útgjöldum sem fallið hafa til vegna barnsins. Annars vegar er flokkun vegna barna með fötlun og barna með þroska- og atferlisraskanir og hins vegar flokkun barna sem glíma við langvinn veikindi. Einnig eru tiltekin greiðslustig sem miðast við umönnun og kostnað vegna barnsins, umönnunargreiðslur geta því verið misháar innan hvers flokks.

 • Hvert mál er metið út frá eftirfarandi þáttum:
  1) Hvaða erfiðleika glímir barnið við?
  2) Hvaða gæsla, umönnun og meðferð er í gangi á hverjum tíma?
  3) Hver er staðfestur útlagður kostnaður hjá framfærendum vegna barnsins?

 • Gott er að hafa í huga í umsóknum um umönnunarmat til Tryggingarstofnunar, að betra er að hafa of mikið af upplýsingum heldur en of fáar. Foreldrar ættu að ganga út frá því að Tryggingarstofnun hafi engar forgefnar upplýsingar um barnið þar sem Tryggingastofnun hefur mjög takmarkaðan aðgang að sjúkraskrám. Umönnunarmatið byggist því á þeim upplýsingum sem veittar eru.

  Hér er sótt um umönnunarmat og umönnunargreiðslur inn á mínum síðum hjá TR.

  i) Athugið að hægt er að óska eftir rökstuðningi fyrir matinu, óska eftir endurmati og einnig er hægt að kæra niðurstöðu mats til úrskurðarnefndar velferðarmála og er kærufresturinn 3 mánuðir.

Umönnunargreiðslur

Umönnunargreiðslur eru fjárhagslegur stuðningur til framfærenda barna með fötlun og/eða langveikra barna auk barna með þrosaraskanir. Umönnunargreiðslur eru veittar þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður.
Fjárhæðir umönnunargreiðslna byggjast á umönnunarmati. Almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerðir ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta, sem er án endurgjalds og nemur samfellt 4 klst. eða meira, skerðir greiðslur.

 • Inná heimasíðu Tryggingarstofnunar má sjá fjárhæðir hvers flokks.

 Umönnunarkort

Umönnunarkort er til lækkunar á læknis- og lyfjakostnaði. Umönnunarkort er veitt með umönnunarmati og því þarf ekki að sækja sérstaklega um kortið heldur birtist það inn á Mínum síðum Tryggingarstofnunar. Kortið veitir afslátt af ýmissi heilbrigðisþjónustu s.s. af komugjöldum til sérfræðinga, læknisfræðilegum rannsóknum og þjálfun barna. Gildistími er frá fæðingu, ef um meðfæddan sjúkdóm eða fötlun er um að ræða, en miðast annars við greiningu barns og nær allt að 16 ára aldri. Heimilt er að lengja gildistíma til allt að 18 ára aldurs vegna barna með lífshættulega sjúkdóma eða alvarlega fjölfötlun. 

Hér má nálgast upphæðir umönnunargreiðslna frá 1.janúar 2023.
Hér má sækja um umönnunargreiðslur.
Hér má lesa meira um umönnunarmat, umönnunargreiðslur og umönnunarkort.
Hér má nálgast lög um félagslega aðstoð nr.99/2007, sjá 4. gr. og hér má nálgast reglugerð nr. 504/1997.

 • Umönnunargreiðslur eru skattfrjálsar og hægt að fá á sama tíma og foreldragreiðslur.
 • Foreldri þarf ekki að leggja niður starf eða hætta í námi til að eiga rétt á umönnunargreiðslum.

Foreldragreiðslur

Foreldragreiðslur byggja á lögum nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Markmið laganna er að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna, einnig vegna bráðaaðstæðna, enda verður vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila ekki við komið.

 • Áður en hægt er að sækja um foreldragreiðslur er nauðsynlegt að hafa fullnýtt réttindi úr styrktar-og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, sé foreldri á vinnumarkaði. Foreldragreiðslur eru þrenns konar: tekjutengdar, námsmannagreiðslur og grunngreiðslur.
 • Í 26. og 27. gr. laganna er að finna tiltekin sjúkdóms-og fötlunarstig en Tryggingarstofnun ríkisins (TR) metur undir hvaða stig vandi barns fellur. Hér má nálgast lögin.

Tekjutengdar greiðslur

Foreldrar geta átt sameiginlegan rétt á tekjutengdum greiðslum í allt að þrjá mánuði - samtals 6 mánuði. Foreldrum er heimilt að skipta greiðslunum eins og þeim hentar best, uppfylli báðir aðilar skilyrðin til greiðslnanna. Foreldrar geta þó ekki þegið greiðslur fyrir sama tímabil, nema ef um er að ræða líknandi meðferð barns.

 • Skilyrði       
  - Vandi barns þarf að uppfylla 1., 2. eða 3. sjúkdóms-eða fötlunarstig.
  - Foreldri þarf að vera í amk. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða starfa við eigin rekstur og standa skil á tryggingargjaldi mánaðarlega. Athugið að hugtakið "þátttaka á vinnumarkaði" á einnig við um þá sem eru t.d í orlofi eða leyfi, á atvinnuleysisbótum eða á sjúkra- eða slysadagpeningum. Hér má nálgast tæmandi upptalningu í lögunum, sjá 9. gr.
  - Foreldri þarf að hafa verið 6 mánuði á vinnumarkaði áður en barnið greinist.
  - Foreldri þarf að leggja niður störf til að annast barnið á meðan greiðslur standa yfir.

  -Barnið þarfnast sérstakar umönnunar foreldris enda verði annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila ekki við komið.
  -Foreldri og barn verða að eiga lögheimili á Íslandi þann tíma sem foreldragreiðslur eru inntar af hendi.
  -Foreldri þarf að hafa lagt niður störf í samtals lengur en 14 virka daga vegna umönnunar barnsins.
  -Heimild er fyrir því að lengja réttinn til tekjutengdra greiðslna um þrjá mánuði ef barn þarfnast verulegrar umönnunar og fellur undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt lögunum, sjá sjúkdómsstigin í 26. og 27. gr. laganna með því að ýta hér. Tryggingastofnun ríkisins metur undir hvaða sjúkdóms og/eða fötlunarstig barn fellur.

 • Tilhögun
  -Foreldri á rétt á greiðslum sem nema 80% af meðaltali heildarlauna, það sem telst til launa í skilningi laganna má finna í 11. gr. laganna, sjá hér.
  -Miðað er við 12 mánaða tímabil sem hefst 2 mánuðum áður en barnið greinist.

  -Þegar foreldri þiggur greiðslur úr sjóðum, t.d. sjúkrasjóðum eða atvinnuleysistryggingarsjóð, skal miða við þær viðmiðunartekjur sem þær greiðslur miðuðust við.
  -Sé foreldri sjálfstætt starfandi skal miða við 80% af meðaltali heildarlauna m.v. tekjuárið á undan því ári sem barnið greinist.
  -Athugið að ef tekjutengdar greiðslur reynast lægri en grunngreiðslur (sjá hér að neðan), þá er hægt að sækja um þær strax.

 • Minnkað starfshlutfall
  - Hægt er að óska eftir hlutfallslegum tekjutengdum foreldragreiðslum í samræmi við minnkað starfshlutfall. 
  - Greiða skal 80% af meðaltali heildarlauna, það sem telst til launa í skilningi laganna má finna í 11. gr. laganna, sjá hér.
  - Fullar greiðslur miðast við starfshlutfall foreldris á ávinnslutímabilinu, sem er 6 mánuðir fyrir greiningu barns.
  - Hægt er að dreifa greiðslunum í lengur en 6 mánuði í samræmi við minnkað starfshlutfall.

  -Komi foreldri í lægra starfshlutfall en það var í áður en það lagði niður störf tímabundið og ástæður þess megi rekja til þeirra bráðaaðstæðna sem komu upp þegar barnið greindist, á það einnig rétt á tekjutengum foreldragreiðslum í samræmi við minnkað starfshlutfall.
  -Skilyrði fyrir greiðslum í minnkuðu starfshlutfalli eru að foreldri leggi niður störf og/eða minnki starfshlutfall samfellt lengur en í fjórtán virka daga og að breyting verði á starfshlutfalli í tvær vikur eða lengur.

Námsmannagreiðslur

Foreldri sem er í námi getur átt rétt á greiðslum, í allt að þrjá mánuði, ef hlé er gert á námi vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar barns.

 • Skilyrði
  -Vandi barns þarf að uppfylla 1. eða 2. stig sjúkdóms- eða fötlunarstig.
  -Foreldri þarf að hafa verið í 75-100% námi í amk. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum áður en barnið greindist og hafa átt lögheimili á Íslandi á þeim tíma.
  - Foreldri þarf að gera hlé á námi í eina önn eða lengur til að annast barnið.
  - Greitt er eftir á þegar önn viðkomandi skóla er lokið og staðfest að foreldri hafi gert hlé á náminu.
  - Athugið að finna má undantekningu í lögunum er varðar nám erlendis, sjá 15. gr. laganna með því að ýta hér.

Grunngreiðslur

Grunngreiðslur eru ætlaðar þeim foreldrum sem eru ekki í námi né vinnu þegar barn greinist. Grunngreiðslur geta einnig verið samþykktar í framhaldi af launatengdum greiðslum eða námsmannagreiðslum.

 • Skilyrði
  -Vandi barns þarf að uppfylla 1. eða 2. sjúkdóms-eða fötlunarstig.

 • Tilhögun
  - Föst upphæð á mánuði sem ákvörðuð er í reglugerð, sjá hér upphæðir fyrir árið 2023.
  - Foreldri sem fær grunngreiðslur fær einnig greiddar barnagreiðslur með hverju barni á heimilinu sem er yngra en 18 ára.
  - Ef um er að ræða einstætt foreldri sem hefur tvö eða fleiri börn á framfæri sínu eru greiddar sérstakar viðbótargreiðslur vegna þeirra.
  - Foreldri getur haldið greiðslunum í allt að þrjá mánuði eftir bata barns sem hefur verið veikt í meira en tvö ár.

Sameiginleg skilyrði

Sameiginleg skilyrði fyrir foreldragreiðslum eru að langveikt barn og/eða barn með alvarlega fötlun þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris vegna sjúkdóms eða fötlunar sem fellur undir sjúkdóms-og/eða fötlunarstig laganna. Sjúkdóms-og fötlunarstigin eru að finna í 26. og 27. gr.laganna, sjá hér.

 •  Tryggingarstofnun ríkisins metur undir hvaða sjúkdómsstig barn fellur.
 • Miðað er við að foreldri geti ekki verið virkur þáttakandi á vinnumarkaði vegna umönnunarinnar meðan greiðslur standa yfir enda verði annarri vistunarþjónustu eða skammtímavistun á vegum opinberra aðila ekki við komið, s.s. hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu eða skammtímavistun fyrir börn með fötlun. 
 •  Þegar kemur að framlengingu tekjutengdra foreldragreiðslna eða umsókn um grunngreiðslur skal jafnframt miða við að umönnunin, sem barn þarfnast vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar, sé veruleg.
 • Við andlát barns er hægt að fá framlengingu á foreldragreiðslum í allt að þrjá mánuði.

Umsókn um foreldragreiðslur

Hvað þarf að fylgja með?

 1. vottorð sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu um greiningu, meðferð og umönnunarþörf barns,
 2. staðfesting frá vinnuveitanda um að foreldri leggi niður störf og um starfstímabil þess, eða vottorð frá skóla um að foreldri hafi gert hlé á námi og fyrri námsvist,
 3. staðfesting sjúkra- eða styrktarsjóðs um að foreldri hafi nýtt sér réttindi sín þar, og
 4. aðrar upplýsingar sem Tryggingastofnun ríkisins telur nauðsynlegar.

Hér má sjá umfjöllun um foreldragreiðslur inn á vefsíðu TR.
Hér má sækja um foreldragreiðslur.
Hér má sjá upphæðir foreldragreiðslna fyrir árið 2023.
Hér má nálgast lög nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna.
Hér má nálgast reglugerð nr. 1277/2007 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna.

 • Foreldragreiðslur eru skattskyldar. 
 • Eingöngu er greitt í lífeyrissjóð af tekjutengdum foreldragreiðslum.
 • Hægt er að fá umönnunargreiðslur og foreldragreiðslur á sama tíma.

Bifreiðastyrkir og niðurfelling bifreiðagjalda

 • Niðurfelling bifreiðagjalda
  Ef umönnunargreiðslur eru samþykktar þá er hægt að sækja um niðurfellingu á bifreiðagjöldum, fylla þarf út sérstakt eyðublað inn á vef ríkisskattsstjóra.
  Hér má nálgast eyðublaðið. Skil skal útfylltri umsókn í næstu afgreiðslu Skattsins eða senda á rafrænu formi í tölvupósti. Ef skila á umsókninni í tölvupósti þarf að vista útfyllta umsókn í tölvu og senda sem viðhengi á trukkur@skatturinn.is.

 • Bílastyrkur
  Foreldrar langveikra barna geta í sumum tilvikum átt rétt á bílastyrk ef barnið er með hreyfihömlunarmat. Um bílastyrkinn þarf að sækja sérstaklega og skila inn hreyfihömlunarvottorði frá lækni. 

Hægt er að sækja um bílastyrk inn á mínum síðum hjá TR.
Hér má finna umsóknina á PDF formi.
Hér má nálgast upphæð bílastyrksins í reglugerð um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Hér má lesa meira um bifreiðamál barna, inn á vef Tryggingastofnunar.

Félagsþjónusta sveitarfélaga

Með félagsþjónustu sveitarfélaga er átt við fjölbreytta þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur. Félagsþjónustan skal leggja sérstaka áherslu á málefni barna, ungmenna, fatlaðs fólks og aldraða. Félagsmálanefndir eða starfsmenn félagsþjónustunnar taka ákvörðun um aðstoð sem sótt er um. Heimilt er að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá tilkynningu um ákvörðun.

Fjárhagsaðstoð

Sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, að veita þeim einstaklingum fjárhagsaðstoð sem ekki eiga réttindi annarsstaðar eða geta ekki framfleytt sér með öðrum hætti. Fjárhagsaðstoð er oftast veitt í formi styrks, en í einhverjum tilfellum er aðstoðin í formi lánveitingar. 

 • Athugið að áður en sótt er um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi þarf að fullnýta réttindi annarsstaðar frá, t.d. frá Tryggingastofnun, sjúkratryggingum, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, lífeyrissjóðum og Atvinnuleysistryggingasjóði. 

Hér má sækja um fjárhagsaðstoð hjá flestum stéttarfélögum landsins. 

Hér má finna reglur nokkurra sveitarfélaga landsins um fjárhagsaðstoð. Ef þig vantar aðstoð við að finna þín réttindi hjá þínu sveitarfélagi endilega hafðu samband við okkur eða sveitarfélagið þitt.
Hér má finna reglur Reykjavíkurborgar.
Hér má finna reglur Kópavogs.
Hér má finna reglur Hafnarfjarðar.
Hér má finna reglur Reykjanesbæjar.
Hér má finna reglur Garðabæjar.
Hér má finna reglur Árborgar.
Hér má finna reglur Akureyrarbæjar.

Stuðningsþjónusta

Sveitarfélagi er skylt samkvæmt 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að sjá um stuðningsþjónustu handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð t.d. vegna veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónusta getur verið með ólíkum hætti en hér má kynna sér helstu úrræði sem boðið er upp á samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir.  Athugið að sótt er um úrræðin hjá viðeigandi sveitarfélagi samkvæmt lögheimili notanda.

1) Almenn stuðningsþjónusta 
Samkvæmt lögum skal sveitarfélag veita
fjölskyldum barna, sem metin eru í þörf fyrir stuðning, almenna stuðningsþjónustu. Í lögunum er kveðið á um almenna stuðningsþjónustu í allt að 15 klukkustundir á viku.

 • Hafi einstaklingur þörf fyrir meiri eða sérhæfðari þjónustu eða stuðning en 15 klukkustundir á viku skal veita viðbótarþjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Sú þjónusta kemur til viðbótar þeirri þjónustu sem er veitt á grundvelli annarra laga, en ekki í stað hennar.

Hér má finna leiðbeiningar félags-og vinnumarkaðsráðuneytisins um almenna stuðningsþjónustu.
Hér má finna lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, sjá 26. gr. um almenna stuðningsþjónustu.

2) Stuðningsfjölskylda 
Aðstoð stuðningsfjölskyldna er veitt samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sveitarfélögum er skylt að tryggja að fjölskyldur fatlaðra barna eigi kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur. Verkefni stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku.

 • Val á stuðningsfjölskyldu getur verið með tvennum hætti. Annars vegar að leyfi sé veitt stuðningsfjölskyldu á grundvelli umsóknar þar að lútandi og hins vegar að tekin sé ákvörðun hverju sinni um að ganga til samninga við tiltekna fjölskyldu um að veita þessa þjónustu.

Hér má finna leiðbeiningar  félags-og vinnumarkaðsráðuneytisins um stuðningsfjölskyldur.
Hér má finna lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir, sjá 15. gr. um stuðningsfjölskyldur.

3) Frístundir 
Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og henni lýkur þegar viðkomandi lýkur framhaldsskóla. Þjónustan skal veitt eftir að reglubundnum skóladegi lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki.

 • Í reglum sveitarfélags skal kveðið á um hvort og þá hvaða gagna er krafist með umsókn um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni og skal öflun þeirra vera unnin í samvinnu við umsækjanda.

Hér má finna leiðbeiningar félags-og vinnumarkaðsráðuneytisins um framkvæmd frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni.
Hér finna lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir, sjá 16. gr. um frístundaþjónustu.

4) Skammtímadvöl 

 • Sjá umfjöllun um skammtímadvöl undir "búsetuúrræði" hér að neðan.

5) Akstursþjónusta
Sveitarfélag skal veita fólki með fötlun kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmiðið er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda. Einnig skal fólk með fötlun eiga rétt á akstursþjónustu til þjónustustofnanna og vegna annarra þjónustu sem það nýtur skv. lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Hér má finna lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, sjá 29. gr. um akstursþjónustu.

Notendasamningur 

Barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir stuðningsþjónustu geta sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað er um framkvæmd þjónustunnar. Markmið notendasamninga er að auka val barnafjölskyldna um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings. Notendasamningur felur í sér að notandi stjórnar því hver veitir aðstoðina, hvenær hún er veitt og hvernig, þannigað best henti hverjum og einum. Notendasamningar geta verið í formi
beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, eða þannig að notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoða hann séu starfsmenn sveitarfélags.

 • Sveitarfélög setja reglur sem fjalla um fyrirkomulag þjónustunnar og samninganna. 

Hér má finna lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, sjá 28. gr. um notendasamninga.

NPA samningur

NPA stendur fyrir notendastýrð persónulega aðstoð sem er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf. Þjónustuformið gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Með NPA samning stýrir fólk því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvað aðstoð er veitt við, hvenær aðstoðin fer fram, hvernig aðstoðin fer fram og hver veitir aðstoðina. Markmiðið er að fólk með fötlun geti lifað lífi sínu og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. 

 • Um er að ræða skriflegt samkomulag, á milli hlutaðeigandi sveitarfélags og notanda, um samningsfjárhæð og fjölda vinnustunda sem eru til ráðstöfunar. 
 • Framlag sveitarfélagsins til NPA samningsins skiptast í launakostnað (85%), kostnað vegna umsýslu (10%) og starfsmannakostnað (5%). Prósentustigin segja til um hvernig ráðstafa skal framlaginu.
 • Á grundvelli samkomulags um vinnustundir getur notandi valið að semja við þann umsýsluaðili sem hann kýs eða sjá sjálfur um umsýsluna, þó skilyrði að hafa gilt starfsleyfi skv. 7. gr. laga nr. 38/2018.

Hér má nálgast reglugerð um NPA samninga.
Hér má nálgast lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sjá gr. 11. um NPA samninga.
Hér má lesa ítarlegar upplýsingar um NPA samninga hjá NPA miðstöðinni.

Búsetuúrræði

Búsetuúrræði er hluti af félagsþjónustu sveitarfélaganna og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Markmiðið er að veita börnum og fjölskyldum þeirra stuðning. Um er að ræða skammtímadvöl og varanlega búsetu utan heimilis fyrir fötluð börn og ungmenni.

Skammtímadvöl

Samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðingsþarfir skulu fötluð börn og ungmenni eiga rétt á skammtímadvöl utan heimilis þegar þörf krefur. Úrræðið er ætlað að veita fötluðum einstaklingum tímabundna dvöl vegna mikilla umönnunarþarfa umfram jafnaldra. Börn geta dvalið þar allt frá hluta úr degi yfir í 15 sólarhringa á mánuði. Hlutverk skammtímadvala er að veita börnum kost á að dvelja tímabundið utan heimilis síns og veita fjölskyldum þeirra stuðning.

 • Skammtímadvalir Reykjavíkurborgar eru eftirfarandi:
  Álfaland
  Árland
  Eikjuvogur
  Holtavegur
  Hólaberg
  Bæjarflöt

  Á höfuðborgarsvæðinu eru einnig tvö einkarekin úrræði sem sérhæfa sig íbúsetuúrræðum fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda:

  Klettabær er sérhæfð þjónusta fyrir börn og ungmenni sem glíma við margþættan vanda. Boðið er uppá einstaklingsbundin búsetuúrræði til langs- og skamms tíma. Einnig er möguleiki á bráðavistun ef aðstæður leyfa. Unnið er eftir hugmyndafræðinni um tengslamyndandi nálgun og notað er atferlismótandi kerfi sem er sérsniðið að einstaklingnum.

  Vinakot starfrækir búsetuúrræði, boðið er upp á langtíma- og skammtímavistun auk hvíldarinnlagna. Boðið er uppá fræðslu, einstaklingsviðtöl, ráðgjöf, heimaráðgjöf og hópastarf. Þjónusta Vinakots er ætluð börnum og ungmennum sem eru að glíma við fjölþættan vanda. Vandinn getur falið í sér hegðunarvanda, vímuefnavanda, geðsjúkdóma, fatlanir, tölvufíkn og þroskafrávik. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og unnin í samráði og samstarfi við alla málsaðila.

 • Athugið að samkvæmt lögum geta foreldrar barns, sem á rétt á skammtímadvöl, fengið stuðning inn á heimili sitt í stað vistunar utan heimilis, óski foreldrar þess, sbr. 17. gr. laga nr. 38/2018.

Varanleg búseta barna utan heimilis

Samkvæmt 20. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skal skipa sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda og barna sem vegna fötlunar sinnar þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra. Komist teymið að þeirri niðurstöðu að barni sé fyrir bestu að búa utan heimilis fjölskyldu þess skal eftir fremsta megni reyna að finna barninu annað heimili í nærsamfélagi þess. Þá segir í 21. gr. að heimilt sé að útbúa sérstakt húsnæði fyrir fötluð börn með miklar þroska- og geðraskanir, enda telji sérfræðingateymið að fullreynt hafi verið að styðja við barn á heimili fjölskyldu þess eða á öðru heimili í nærsamfélagi þess.

Sveitarfélag ber ábyrgð á að skipulag og framkvæmd úrræðisins um búsetu barna utan heimilis, hvort sem þjónustan er veitt af starfsfólki sveitarfélags eða einkaaðila samkvæmt þjónustusamningi, sé í samræmi við ákvæði reglugerðar sem og ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

 • Hjá sveitarfélögunum er hægt að fá nánari upplýsingar um dvalarstaði.

Hér má nálgast lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sjá 17. gr. um skammtímadvalir og 20. gr. um vistun barna utan heimilis.
Hér má nálgast reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.
Hér má nálgast reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir.

Sjúkratryggingar Íslands

Markmið Sjúkratrygginga er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnhag. Sjúkratryggingar greiða hluta af kostnaði eða allan kostnað þeirra sem eru sjúkratryggðir vegna heilbrigðisþjónustu.

Hverjir eru sjúkratryggðir?

 • Sjúkratryggður er sá sem hefur átt lögheimili á Íslandi og hefur átt það amk. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum. Börn sem eru yngri en 18 ára og eiga lögheimili á Íslandi eru sjúkratryggð með foreldrum sínum, sama gildir um stjúpbörn og fósturbörn.

 • Sjúkratrygging fellur niður þegar sjúkratryggður flytur búsetu sínu frá Íslandi. Þó eru undantekningar varðandi þessa reglu sem taka til einstaklinga sem starfa erlendis, stunda nám erlendis og flytjast af landi burt í allt að eitt ár, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sjá 11. gr. laga um sjúkratrygggingar nr. 112/2008.

Hjálpartæki og næring

 • Hjálpartæki
  Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

  Sjúkratryggingar veita styrk til kaupa á eftirfarandi stoð- og meðferðarhjálpartækjum:
  - Bæklunarskóm og innleggjum
  -Gerviútlimum og öðrum gervihlutum
  - Spelkum
  - Þrýstisokkum og þrýstibúnaði
  - Öndunarhjálpartækjum og súrefni

  Sækja þarf um styrk frá Sjúkratryggingum Íslands til kaupa á hjálpartæki á sérstökum umsóknum til stofnunarinnar og skal það gert áður en fest eru kaup á hjálpartæki. Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð styrks er heimilt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga til úrskurðarnefnd velferðarmála.

  Hér má nálgast reglugerð um styrki vegna hjálpartækja.
  Hér má lesa meira um greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga vegna hjálpartækja.
  Hér má nálgast umsóknarform stofnunarinnar. Athugið að nauðsynlegt er að vista skjalið í tölvu og opna það aftur með pdf hugbúnaði til að fylla geta fyllt út umsóknina- t.d. adobe reader. Þegar umsóknin hefur verið útfyllt skal skila henni inn á réttindagátt Sjúkratrygginga.

 • Næring
  Sjúkratryggingar niðurgreiða lífsnauðsynleg næringarefni og sérfæði þegar sjúkdómar eða afleiðingar slysa valda verulegum vandkvæðum við fæðuinntöku og upptöku næringarefna og þegar um langvarandi þörf er að ræða, að minnsta kosti þrjá mánuði.

   Sjúkratryggingar niðurgreiða eftirfarandi:
  -Amínósýrublanda vegna efnaskiptagalla

  -Næring um slöngu (sondunæring) ásamt fylgihlutum og dælu
  -Fylgihlutir vegna næringar í æð
  -Næringardrykkir, almennir og sérhæfðir
  -Þykkingarefni vegna kyngingarerfiðleika
  -Próteinskert fæði vegna efnaskiptagalla
  -Peptíðmjólk/amínósýrublanda vegna mjólkurofnæmis fyrir börn 0-2 ára

  Læknir, næringarfræðingur eða annar heilbrigðisstarfsmaður metur þörf og sendir umsókn. Þegar um er að ræða mjólkurofnæmi barna skal ofnæmi staðfest af ofnæmislækni, barnaofnæmislækni eða meltingarlækni.
  Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð styrks vegna næringarefna og/eða sérfæðis samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðarnefndar velferðarmála.

  Hér má nálgast frekari upplýsingar um næringarefni og sérfæði inn á heimasíðu Sjúkratrygginga.

  Hér má nálgast reglugerð um styrki til kaupa á næringaefnum og sérfæði. Í fylgiskjalinu með reglugerðinni, sem er að finna neðst á síðunni, má sjá upphæðir styrkja.

Sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun

Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og talþjálfunar samkvæmt greiðsluþátttökukerfinu. Rétturinn nær til allt að 15 meðferðarskipta á 12 mánaða tímabili. Hægt er að sækja um viðbótarþjálfun.

Hér má nálgast frekari upplýsingar inn á heimasíðu Sjúkratrygginga.
Hér má nálgast reglugerð um greiðsluþáttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Læknismeðferðir erlendis

 • Eftirtalin skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að Sjúkratryggingum sé heimilt að samþykkja greiðslu vegna læknismeðferðar erlendis:
  -að um brýna nauðsyn á læknismeðferð erlendis sé að ræða

  -að ekki sé unnt að veita nauðsynlega hjálp hér á landi
  -að læknismeðferðin sé viðurkennd

Hér má nálgast frekari upplýsingar inn á heimasíðu sjúkratrygginga.

Hér má nálgast lög um Sjúkratryggingar Íslands.
Hér má nálgast öll eyðublöð Sjúkratrygginga Íslands.
Hér má nálgast yfirlit laga og reglugerða sem tengjast sjúkratryggingum.

Heimahjúkrun

Heimahjúkrun er þjónusta hjúkrunarfræðings eða sjúkraliða sem er veitt á heimili barns. Þjónustan er veitt þegar þörf er á aðstoð fagfólks við umönnun og eftirlit með veiku barni. 

 • Til að sækja um heimahjúkrun skal leita til heilbrigðisstarfsfólks, til dæmis lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum eða sjúkrahúsum. Það leggur mat á þörf fyrir heimahjúkrun og sendir inn beiðni til sveitarfélags eða heilbrigðisstofnanna, eftir því sem við á.

 • Á höfuðborgarsvæðinu sjá hjúkrunarfræðingar um sérhæfða heimahjúkrun langveikra barna samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Til að senda inn beiðni um sérhæfða heimahjúkrunar skal læknir eða hjúkrunarfræðingur fylla út eyðublaðið sem má finna hér að neðan og senda í gegnum heilsugátt Landspítalans.
  Hér má finna eyðublaðið.

Rjóðrið 

Rjóður er hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og fötluð börn. Rjóðrið er úrræði fyrir börn á aldrinum 0-18 ára sem hafa það sameiginlegt að þarfnast mikillar hjúkrunar og umönnunar. Í Rjóðrinu starfa hjúkrunarfræðingar, þroskaþjálfar, sjúkraliðar og félagsliðar. Rjóðrið er hluti af kvenna og barnaþjónustu Landspítalans.

 • Læknir barnsins þarf að senda beiðni um innlögn í Rjóður. Beiðnin er metin af inntökuteymi Rjóðurs sem í eru deildarstjóri Rjóðurs og læknar og hjúkrunarfræðingar taugateymis barna.

Hér má lesa nánar um Rjóðrið inn á heimasíðu Landspítalans.

Skólaúrræði

Þessi síða er í vinnslu.

Samkvæmt lögum eiga fötluð börn rétt til náms með viðeigandi stuðningi á öllum stigum skólakerfisins.

Leikskólastig

Samkvæmt lögum eiga fötluð börn rétt á leikskóladvöl, en hana skal veita á almennum leikskólum með nauðsynlegri stuðningsþjónustu eða á sérhæfðum deildum.

Grunnskólastig

Klettaskóli
Hér má sjá reglur Klettaskóla um innritun og útskrift 

Arnarskóli
Brúarskóli

Framhaldsskólastig

Starfsbrautir framhaldsskóla.

Frístundaþjónusta

Í 16. gr. laga nr. 38/2001 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir segir að sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónstu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, einnig á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. 
Á höfuðborgarsvæðinu eru 

 

16. gr. Frístundaþjónusta.
Sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. Þessi þjónusta tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og henni lýkur þegar viðkomandi lýkur framhaldsskóla. Þjónustan skal vera einstaklingsmiðuð og á því formi sem best hentar viðkomandi. Veita skal þjónustu vegna fötlunar samhliða almennum frístundatilboðum, eins og mögulegt er. Þessi þjónusta skal að jafnaði taka mið af metnum stuðningsþörfum og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi barns eða ungmennis.

 

Barnið verður 18 ára

Þessi síða er í vinnslu.

Örorkubætur
Skipun persónulegs talsmanns

Sjónarhóll

Sjónarhóll er óháð ráðgjafarmiðstöð sem vinnur að því að styrkja og efla einstakar fjölskyldur. Hjá Sjónarhóli geta fjölskyldur fengið aðstoð á ýmsu formi og er þjónusta Sjónarhóls gjaldfrjáls. 

Megintilgangur

Megintilgangurinn með þjónustunni er að börn og fjölskyldur þeirra geti nýtt sér almenna lögbundna þjónustu og komist í samband við önnur úrræði sem gætu gagnast þeim. Áhersla er lögð á að hjálpa foreldrum að greina þarfir sínar og barns, efla og nýta sín eigin bjargráð með því að styðja þau að sjálfstæði og að lokum að fræða foreldra um þau þjónustuúrræði sem gætu gagnast þeim.

 • Sjónarhóll vinnur einnig að samþættingu og umbótum í þjónustu við fjölskyldur barna með ólíkar þarfir að leiðarljósi.

Þjónusta í boði

Þjónusta Sjónarhóls felst í ráðgjöf og stuðningi við fjölskyldur barna með sérþarfir. Um er að ræða ráðgjöf þar sem að hagsmunir barnsins eru hafðir að leiðarljósi. Ráðgjöfin er veitt í síma, með tölvupósti, viðtölum eða fundum með þátttöku fleiri foreldra, mismunandi fagaðila og stuðningsaðila eftir því sem við á auk þessa að efla tengsl fjölskyldna sem búa við svipaðar aðstæður.

Hér má hafa samband við Sjónarhól.

Réttindagæsla 

Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk hafa það markmið að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.

Samkvæmt lögunum skulu starfa réttindagæslumenn í öllum landshlutum og skulu þeir sem starfa sem slíkir hafa þekkingu og reynslu af málefnum og réttindum fatlaðs fólks.

Fatlaður einstaklingur getur leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi hans, fjármuni eða önnur persónuleg mál og skal réttindagæslumaður veita honum stuðning og aðstoða við að leita réttar síns eftir því sem við á.

 • Hægt er að ná tali af réttindagæslumönnum með því að hringja í síma 554-8100.

Hér má finna lög um réttindagæslu fatlaðs fólks.
Hér má finna reglugerð um réttindagæslu fatlaðs fólks.
Hér má finna ítarlegri upplýsingar á vef stjórnarráðsins.

Stuðningsteymi Landspítalans

Stuðningsteymi Landspítalans veitir heildræna þjónustu með fjölskyldumiðaða nálgun í huga. Starfsmenn teymisins eru tveir, þær Hafdís Þorsteinsdóttir, félagsráðgjafi og Helga Jónasdóttir, þroskaþjálfi. Þjónusta teymisins er margþætt en hægt er að fá stuðning á meðan greiningarferli stendur, aðstoð við úrvinnslu áfalla, aðstoð við að byggja upp daglegt líf sem hentar barni og fjölskyldu, aðstoð við að finna og upplýsa fjölskyldur um viðeigandi úrræði og stuðning sem er í boði, upplýsingar um réttindi foreldra eða fjölskyldu og aðstoð við að sækja þau réttindi. Þá getur teymið einnig komið að samstarfi við og stuðlað að góðri þjónustu í nærumhverfi fjölskyldu.

 • Teymið þjónustar börn með miklar umönnunarþarfir, m.a. vegna sjaldgæfra sjúkdóma.
 • Tímapantanir og fyrirspurnir til teymis skulu berast í tölvupósti á netfangið studningur@landspitali.is eða símleiðis í síma 543 3724.

Hér má sjá ferli þjónustu stuðningsteymisins:

Ferli þjónustu við langveik börn með sjaldgæfa sjúkdóma

Sorgarleyfi og sorgarstyrkur

Sorgarleyfi er ætlað að tryggja foreldum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Með lögfestingu laga um sorgarleyfi er leitast við að viðurkenna áhrif sorgar vegna barnsmissis á fjölskyldur í heild en í frumvarpi til laganna er sérstaklega fjallað um að huga þurfi að stuðningi við börn og barnafjölskyldur í kjölfar þess áfalls sem verður við að missa barn. Leitast er eftir að tryggja foreldrum á vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu og veita stuðning þegar kemur að endurkomu á vinnumarkað og þátttöku í samfélaginu að nýju í kjölfar barnsmissis. Lögin taka einnig til foreldra utan vinnumarkaðar eða foreldra sem hafa verið í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi, en til þeirra er úthlutaður sorgarstyrkur. 

Hér má sækja um sorgarstyrk.
Hér má sækja um sorgarleyfi.
Hér má lesa meira um sorgarleyfi og sorgarstyrk inn á vef Vinnumálastofnunar.
Hér má nálgast lög nr. 77/2022 um sorgarleyfi.
Hér má sjá upphæðir sorgarstyrks.
Hér má sjá upphæðir greiðslna í sorgarleyfi.

Upplýsingabæklingur 

Hér má nálgast upplýsingabækling, sem þær Halldóra Jónasdóttir og Ingibjörg Freyja Gunnarsdóttir þroskaþjálfanemar í HÍ tóku saman um helstu réttindimál langveikra barna. Bæklingurinn er frá 2018 og því gott að hafa í huga að eitthvað hefur breyst og uppfærst. Nýjustu upplýsingar er að finna á heimasíðu Umhyggju.