Team Rynkeby Ísland

Síðastliðin ár hefur Team Rynkeby Ísland hjólaliðið safnað styrkjum og hjólað fyrir Umhyggju - félag langveikra barna. Markmið söfnunarinnar er að safna í sjóð sem nýttur verður til rannsókna á illvígum sjúkdómum barna.

Team Rynkeby á uppruna sinn að rekja til Danmerkur árið 2002 en Rynkeby er danskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu safa- og þykknis. Starfsmaður fyrirtækisins vildi bæta heilsu sína og datt í hug að hjóla frá Danmörku til Parísar. Svo fór að 11 hjólarar hjóluðu frá Danmörku til Parísar, rúmlega 1.200 km. ásamt einum sjálfboðaliða og smárútu. Liðið fékk m.a. styrk frá fyrirtækinu Rynkeby í formi safa til að hafa með í ferðinni. Í reynd var Team Rynkeby ekki stofnað sem góðgerðarverkefni en þegar hjólreiðamennirnir komu heim úr fyrstu ferð sinni árið 2002, gáfu þeir þá peninga sem eftir voru til krabbameinsdeildar barnanna á háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum. Þetta var upphafið að góðgerðarverkefninu sem er til staðar í dag þar sem þátttakendum og styrktaraðilum fjölgar jafnt og þétt ár frá ári – og það gera einnig framlög til samtakanna sem Team Rynkeby styður.

Það er stórkostlegt að fylgjast með Team Rynkeby liðinu á Íslandi leggja af stað ár hvert eftir heilan vetur af æfingum, en þau fljúga frá Íslandi til Danmerkur og hjóla þaðan til Parísar, um 1.300 kílómetrar á 8 dögum. Eljusemin, dugnaðurinn, æfingarnar, skipulagning, þrautseigjan og styrkurinn sem fólkið í liðinu sýnir er ótrúlegur. Ferðalögin, hjólin og allt annað er á þeirra eigin kostnað og því rennur hver einasta króna til málstaðarins. Með framlaginu gefur Team Rynkeby von, ekki bara til barnanna í dag heldur einnig til framtíðarinnar, þar sem við getum haldið áfram að bæta lífsgæði langveikra barna.

Þess má geta að félagar í Team Rynkeby liðinu eru alltaf boðnir og búnir til að aðstoða okkur hjá Umhyggju, hvort heldur er við framkvæmd Umhyggudagsins, aðstoð við lagfæringar í orlofshúsum félagsins eða hverju því sem við leitum til þeirra með. Liðið er því sannur bakhjarl Umhyggju og þar með langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Hér að neðan  má sjá styrktarupphæðirnar sem safnast hafa ár hvert.

  • 2025 - 33.123.081
  • 2024 - 31.945.738
  • 2023 - 36.011.706
  • 2022 - 35.310.463

Viltu vita meira um Team Rynkeby? Endilega kíktu inn á vefsíðu þeirra.