Góð ráð til að takast við áskoranir Covid-19 faraldursins og áhrif hans á börn

Berglind Jóna Jensdóttir, sálfræðingur Umhyggju
Berglind Jóna Jensdóttir, sálfræðingur Umhyggju

Berglind Jóna Jensdóttir, sálfræðingur Umhyggjur, hefur tekið saman góð ráð til að bregðast við þeirri áskorun sem Covid-19 er og þeim áhrifum sem ástandið kann að hafa á börnin okkar. Við hvetjum ykkur til að lesa hann hér að neðan!

 

Áskoranir

Lífið er fullt af áskorunum og yfirleitt eru þær á þann veg að hvert og eitt okkar er að eiga við sín persónulegu úrlausnarefni. Það sem við upplifum núna á tímum COVID-19 er að allir í þjóðfélaginu eru að takast á við sömu áskorun. Hún gengur þvert á landamæri og spyr ekki um stétt eða stöðu. Má segja að öll heimsbyggðin hafi fengið það sameiginlega verkefni að takast á við þennan vágest.

Nokkuð hefur verið fjallað um þá sem standa höllum fæti í þessari baráttu og að það getur reynst þeim þyngri raun að sýkjast en almennt er um heilbrigða einstaklinga. Einhverjir sem tilheyra aðildarfélögum Umhyggju falla undir þennan hóp. Það sem léttir samt á þessum áhyggjum er að almennt eru börn að veikjast síður en þeir sem eldri eru og að ef þau fá veiruna þá sýna þau oftast væg einkenni. Þau börn sem eru talin í aukinni áhættu eru börn sem eiga við langvinna lungnasjúkdóma, alvarlega hjartasjúkdóma, líffæraþegar og þau sem glíma við langvinna taugasjúkdóma. Nánari umfjöllun um börn og COVID-19 og þau sem eru í aukinni áhættu má nálgast á slóðinni: https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Klinisk-svid-og-deildir/Kvenna--og-barnasvid/Barnaspitalinn/Tilkynningar/COVID-19_radleggingar_barnaspitali_hringsins_160320.pdf. Einnig vil ég benda ykkur á fyrirlestur þar sem Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir ræðir um COVID-19 og börn. Fyrirlesturinn er aðgengilegur á þessari slóð: https://www.landspitali.is/um-landspitala/fjolmidlatorg/frettir/stok-frett/2020/04/06/Barnasmitsjukdomalaeknir-fjallar-um-Covid-19-og-born-i-veffyrirlestri-myndskeid/

Sum börn eiga erfitt með að skilja munnlegar leiðbeiningar og þeim hentar betur að hafa þær sjónrænar. Inn á vef Landlæknis má finna útskýringar fyrir börn t.d. á því hvað kórónaveiran er og að mikilvægt er fyrir börn að segja foreldrum eða öðrum sem þau treysta frá því hvernig þeim líður. Þetta er skýrt með texta og myndum og má nálgast á þessari slóð: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item39944/Hallo%20eg%20heiti%20korona.pdf

Einnig vil ég benda ykkur á Veirubókina eftir Manuela Molina en hún hefur verið þýdd á íslensku og er á slóðinni: http://www.christinavandeventer.com/wp-content/uploads/2020/03/VeirubokIcelandic.pdf. Bókin getur verið heppileg fyrir börn til að fræðast um kórónuveiruna og einnig góð leið til að opna á umræður við börn um þennan óvenjulega tíma sem við lifum og þá ógn sem steðjar að okkur. Æskilegt er að foreldrar lesi þetta efni með börnum sínum og opni fyrir umræður um það. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF hefur tekið saman átta heilræði um hvernig best er að bera sig að þegar talað er við börn um COVID-19.  Þar er m.a. lögð áhersla á að vera heiðarleg en ábyrg þegar við ræðum við börnin okkar. Nánar má lesa um vegvísi UNICEF hér: https://unric.org/is/hvernig-talar-madur-vid-bornin-um-korona-faraldurinn/

Ef barninu þínu líður það illa að það hefur hamlandi áhrif á líf þess er mikilvægt að leita sér hjálpar. Sálfræðiaðstoð fyrir börn er t.d. veitt á vegum sálfræðinga á heilsugæslu og flestir skólar hafa aðgang að skólasálfræðingum sem gott getur verið að leita til. Einnig eru fræðslumyndbörn sem henta vel börnum og unglingum inn á YouTube um tilfinningar s.s. kvíða og depurð sbr. https://www.youtube.com/watch?v=uDkE4YtTtUc og https://www.youtube.com/watch?v=ORC5BErw75k. Þar er einnig að finna fræðslu um hugræna atferlismeðferð (HAM) sem sálfræðingar nota oft sem meðferðarúrræði við tilfinningavanda. Kynningarmyndband um HAM sem hentar t.d. vel unglingum má finna hér: https://www.youtube.com/watch?v=XO0rzb7gFtA. Þessi myndbönd má einnig finna ef flett er upp „Vertu þinn besti vinur“ á YouTube.

Miklu máli skiptir að við sýnum stillingu og yfirvegun á þessum tímum og líka þegar við fikrum okkur í átt til hefðbundnara lífs. Ekkert okkar veit hve langan tíma þetta tekur og hvort að við þurfum að snúa til baka og herða aftur aðgerðir. Þrátt fyrir þessa óvissu þurfum við að halda ró okkar og vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar. Ef við förum eftir tilmælum um sóttvarnir og nálgumst þetta verkefni af skynsemi og seiglu er líklegra að börnin okkar geri það einnig. Höfum ávallt í huga að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Gangi ykkur sem allra best,

Berglind Jensdóttir                                                                        

Sálfræðingur hjá Umhyggju – félagi langveikra barna