Sumarblað Umhyggju komið á vefinn

Á morgun kemur sólin....

Við skýin felum ekki sólina af illgirni.
Við skýin erum bara að kíkja á leiki mannanna.
Við skýin sjáum ykkur hlaupa, úúúúps, í rokinu
klædd gulum, rauðum, grænum,
bláum regnkápum.
Eins og regnbogi meistarans,
regnbogi meistarans.
Við skýin erum bara grá, bara grá.
Á morgun kemur sólin,
hvar verðum við skýin þá?
Hvar þá, hvar þá, hvar þá, hvar þá,
hvar þá, hvar þá, hvar verðum við skýin þá?

Spilverk þjóðanna

Á morgun kemur sólin... þetta lag hefur hljómað aftur og aftur í huga mér síðustu daga.  Við erum nefnilega alltaf að bíða eftir sólinni, sumrinu.  Hvar sem við komum saman, fleiri en einn og tveir, þá er veðrið til umræðu og við spáum í það hvenær sumarið ætlar eiginlega að fara að  koma.  

En sumarið er komið og það er alls ekki verið að fela sólina af illgirni. Sumarið er komið og kannski kemur sólin á morgun en það er klárlega tími til að njóta  þess að vera úti sama hvernig viðrar.  Og ef við erum svo heppin að geta skellt okkur í stígvél, klæðst gulum, rauðum, grænum og bláum regnkápum þá er ótrúlega skemmtilegt að rifja það upp hvernig er að hoppa í pollunum og jafnvel drullumalla ef það er mögulegt.

Sumarblaðið okkar, sem þú ert nú með í höndunum, er fullt af sól, litum, gleði og vonandi gagnlegum og áhugaverðum  upplýsingum.   Við erum alltaf að hugsa blaðið upp á nýtt, velta fyrir okkar hvað við getum gert betur og óskum að sjálfsögðu eftir ykkar skoðun á því hvernig blaðið á að vera. Það er hægt að senda okkur hugmyndir að efni eða ábendingar á netfangið umhyggja@umhyggja.is eða í gegnum facebook síðuna okkar sem við hvetjum ykkur til að fylgjast með og deila áfram til vina og vandamanna.

Margt hefur drifið á daga okkar hjá Umhyggju síðustu vikur og misseri sem við segjum frá hér í blaðinu.  Fjölmargir hafa fært Umhyggju gjafir að undanförnu og þökkum við þeim öllum kærlega fyrir.  Ný heimasíða er komin í loftið, aðalfundur var haldinn og kosið í stjórn félagsins. Var ákveðið að kynna stjórnina sérstaklega í þessu blaði, hvaða fólk það er sem valist hefur til forystu og fyrir hvað Umhyggja stendur í þess huga – sem sagt tækifæri til að kynnast fólkinu sem er að vinna fyrir félagið okkar.   

Ert þú Umhyggjusamur einstaklingur? Við segjum ykkur allt um þetta flotta verkefni hér í blaðinu og hvetjum ykkur til að taka þátt í því – það er nefnilega mjög auðvelt að vera umhyggjusamur.

Njótið dagsins, blaðsins og sumarsins – því á morgun kemur sólin og hvar verða skýin þá ?

Bestu kveðjur,
Steinunn Þorsteinsdóttir ritstjóri.

Hér er hægt að skoða blaðið.