Með Umhyggju á Everest - nýtt verkefni fer af stað

Í vor munu þeir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson ganga á Everest. Þeir hafa hugsað sér að nota þennan leiðangur til að vekja athygli á Umhyggju og málefnum langveikra barna og safna um leið áheitum/styrkjum til að styðja við starfið sem er í örum vexti þessa dagana með aukinni þjónustu. Við erum ótrúlega glöð og hlökkum mikið til þessa samstarfs.
 

Þeir leggja af stað ásamt Garpi Ingasyni Elísabetarsyni í mars og stefna að því að toppa seint í maí. Garpur mun mynda ferlið og fer með þeim alla leið upp í grunnbúðir Everest. Hefur leiðangurinn fengið nafnið „Með Umhyggju á Everest”.

Markmiðið hjá þeim félögum er að sýna reglulega frá æfingatímabilinu og frá ferðinni sjálfri, bæði þegar vel gengur og einnig frá krefjandi augnablikum í ferðinni.
 
Þá Heimi og Sigga langar mikið að komast í tengsl við þau börn og fjölskyldur sem eru í félgögum sem tengjast Umhyggju og hafa hug á að taka með sér á Everest drauma langveikra barna og systkina þeirra, alla leið upp á toppinn. Þannig vonast þeir til að krakkarnir eða fjölskyldur þeirra sendi þeim drauma sem þeir geta svo lesið upp á leiðinni og jafnvel póstað (nafnlaust) til hvatningar þegar á móti blæs á leiðinni. Hægt er að senda þeim draumana hér.
 
Hægt er að fylgjast með undirbúningi og ferðalagi göngugarpanna á facebooksíðunni Með Umhyggju á Everest og á instagramreikningi umhyggju @umhyggja.is
 
Fylgist með þessu ævintýralega ferðalagi með okkur!