Skráning hafin á námskeiðið Núvitund fyrir foreldra sem fer af stað í mars

Í mars fer af stað námskeiðið Núvitund fyrir foreldra, sem er samstarfsverkefni Umhyggju og sálfræðinganna Álfheiðar Guðmundsdóttur og Lindu Bjarkar Oddsdóttur. 

SKRÁNING

Að ala upp barn er eitt mest krefjandi verkefni sem við tökumst á við á lífsleiðinni. Stundum reynir það verulega á og stundum veitir það okkur mikla ánægju. Stundum höfum við svo mikið að gera að uppeldið verður að einhverskonar framkvæmdastjórn yfir barni og fjölskyldulífi í stað þess að við náum að njóta þess einfaldlega að vera með barninu okkar og fjölskyldunni. Þegar svo ber undir verður uppeldið bara enn eitt verkefnið á endalausa „to-do“ listanum okkar og við missum af því að upplifa það að vera með barninu okkar og fjölskyldu.

Námskeiðið Núvitund fyrir foreldra (Mindful parenting) var þróað af sálfræðingunum dr. Susan Bögels og dr. Kathleen Restifo. Í núvitund fyrir foreldra eru foreldrar þjálfaðir í að beina athyglinni að því sem er hér og nú. Áherslan er á að vera frekar en að gera þegar þeir eru með börnunum sínum. Með því að þjálfa athygli á þennan hátt geta foreldrar einnig átt auðveldara með að takast á við eigin streitu, streitu í tengslum við uppeldi, í samskiptum við maka og í fjölskyldunni. Þetta getur haft jákvæð áhrif á foreldrafærni og samskipti við barnið.

Námskeiðið verður kennt á miðvikudögum frá kl. 20-22 í húsnæði Sálstofunnar, Hlíðarsmára 17. Námskeiðið er átta skipti og mun hefjast 8. mars nk. og ljúka 3. maí.

Námskeiðið er haldið í samstarfi við Umhyggju og er ætlað félagsfólki í Umhyggju eða aðildarfélögum Umhyggju. Kostnaður er að stærstum hluta niðurgreiddur af Samfélagsstyrk Landsbankans og Umhyggju. Skráningargjald þátttakenda er 5000 kr. fyrir einstaklinga og 7500 kr. fyrir pör.

Leiðbeinendur eru Álfheiður Guðmundsdóttir og Linda Björk Oddsdóttir sálfræðingar sem hafa áralanga reynslu af að vinna með börnum og foreldrum þeirra. Þær hafa lokið þjálfunarnámskeiði hjá dr. Bögels og hlotið kennsluréttindi til að leiða námskeiðið.

Skráning er hjá Umhyggju og verður greiðsluseðill skráningargjalds sendur í heimabanka.

Laus pláss á námskeiðinu eru 14.

SKRÁNING