Vel heppnað málþing að baki

Mánudaginn 3. nóvember fór fram málþing Umhyggju sem bar nafnið Fjórða vaktin – álag og örmögnun. Var kastljósinu beint að því álagi og stundum örmögnun sem foreldrar langveikra og fatlaðra barna upplifa gjarnan. Fyrirlesarar úr hópi foreldra og fagfólks tóku til máls en gestir málþingsins voru yfir 400, bæði fjöldi foreldra og einnig fagaðilar úr ýmsum áttum innan heilbrigðis-, félags- og menntageirans.

Dr. Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur fjallaði um lífsörmögnun foreldra langveikra barna og deildi einnig sögu sonar síns, en Eygló er móðir langveiks barns og hefur því setið beggja vegna borðsins. Þær Teresa Mano frá Azoreyjum og Karen van Meeteren frá Hollandi sögðu frá rannsókninni „Parents in balance“. Þær fjölluðu um hugtakið „burn-on“ sem felst í því ástandi þegar fólk er orðið örmagna en verður samt að halda áfram að annast barnið sitt, auk þess að deila reynslu sinni af umönnun sinna eigin barna, verandi mæður á fjórðu vaktinni. Petra Fanney Bragadóttir fór á kostum í sínu erindi en hún fjallaði um á uppörvandi hátt hvernig hún og langveikur sonur hennar hafa rúllað gegnum lífið og hvaða bjargráða þau hafa gripið til. Nina Eck, teymisstjóri jafningjastuðnings á LSH og félagsráðgjafi, var með afar áhugavert erindi um mikilvægi jafningjastuðnings, en kostir jafningjastuðnings innan foreldrahóps langveikra og fatlaðra barna eru ríkulegir. Þá var starfsemi Sjónarhóls ráðgjafarmiðstöðvar kynnt og foreldrar hvattir til að setja sig í samband hafi þeir hugmyndir að hópastarfi eða öðru foreldrasamstarfi. Í lokin flutti Anna Dóra Frostadóttir sálfræðingur frá Núvitundarsetrinu erindi um hvernig foreldrar langveikra og fatlaðra barna geti nýtt ACT (acceptance and commitment therapy) og samkennd í eigin garð til að takast á við lífsins verkefni.

Málþingið heppnaðist frábærlega og erum við hjá Umhyggju innilega þakklát öllum þeim sem að því komu. Hjartans þakkir til fyrirlesaranna okkar, fundarstjóranna þeirra Söru og Lóu hjá Fjórðu vaktinni, allra gestanna sem sáu af tíma sínum til að koma og vera með okkur, að ógleymdu Hilton Nordica sem studdi félagið af rausn.

Fyrir þá sem misstu af málþinginu eða vilja glöggva sig frekar á einhverju erindanna þá bendum við á að upptöku af málþinginu má nálgast hér: https://www.umhyggja.is/is/frettir/malthing-beint-streymi

Hér að neðan má einnig sjá nokkrar myndir sem náðust á málþingsdeginum.