Vegna heimahjúkrunar barna á höfuðborgarsvæðinu

Þann 20. júní síðastliðinn var samningi SÍ við Heilsueflingarmiðstöðina um heimahjúkrun barna á höfuðborgarsvæðinu sagt upp frá og með 1. desember 2019. Engin svör bárust um hver tæki við framkvæmd þjónustunnar þar til 23. október síðastliðinn, en þá barst foreldrum langveikra barna sem fá heimahjúkrun eftirfarandi póstur frá Sjúkratryggingum Íslands:

 „Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ákveðið að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um heimahjúkrun langveikra barna en Reykjavíkurborg sinnir nú þegar heimahjúkrun við stóran hóp sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að þessi þjónusta verði áfram með sambærilegum hætti og hingað til; að þar verði starfandi sérhæft teymi sem sinni henni.

Af ýmsum ástæðum var ekki talið unnt að halda áfram með óbreyttan samning við Heilsueflingarmiðstöðina sem sinnt hefur þessari þjónustu.

Nýr þjónustuveitandi tekur því við þjónustunni í framhaldi af núgildandi samningi sem rennur út 30. nóvember nk. Áfram verða gerðar sömu kröfur til þjónustuveitenda um sérhæfingu og reynslu hjúkrunarfræðinga. Til þess að ekki verði rof á þjónustunni er það einlæg von SÍ að tilfærsla þessi gangi vel fyrir sig, með aðkomu allra aðila, og þessar breytingar hafi óveruleg áhrif á þá sem þarfnast þessarar þjónustu.

Umhyggja lýsir yfir og undirstrikar þungar áhyggjur sínar af málinu þar sem stuttur tími er til stefnu og ítrekar mikilvægi þess að þjónusturof eigi sér ekki stað við þennan viðkvæma hóp. Um er að ræða flókna og gríðarlega sérhæfða þjónustu sem ekki er á færi margra að veita og því brýnt að farsæl lending náist. Nefna má að á hverju ári nýta um 200 til 250 börn sér heimahjúkrunarþjónustu. Ólíðandi er að foreldrar bíði átekta í óvissu eða sjái fyrir sér að þurfa sjálfir að sinna þeim sérhæfðu störfum sem hjúkrunarfræðingar hafa hingað til sinnt. Við biðlum því til hlutaðeigandi að leggja sitt ítrasta af mörkum til þess að koma í veg fyrir að þjónustan falli upp fyrir eða skerðist með einhverjum hætti um lengri eða skemmri tíma.

 

Fyrir hönd stjórnar Umhyggju,

Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri