Umhyggja fær styrk til reksturs sumarhúss fyrir fjölskyldur langveikra barna

Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hefur veitt Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, styrk að upphæð 500 þúsund krónur. Formaður Umhyggju veitti styrknum viðtöku f.h. samtakanna þann 2. desember 2008.

Umhyggja hefur boðið félagsmönnum sínum afnot af tveimur sumarhúsum í Vaðlaborgum við Eyjafjörð og er styrkurinn ætlaður til að efla þennan þátt í starfsemi félagsins. Það er mjög mikilvægt fyrir foreldra langveikra barna að hafa hvíldarstað þar sem fjölskyldan getur öll verið saman og hvílt sig frá amstri dagsins. Annað húsanna er með sérstökum búnaði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða, meðal annars sjúkrarúmi og hreyfanlegri sjúkralyftu. Húsin eru vel staðsett í Vaðlaheiði gegnt Akureyri og aðeins í örfárra mínútna akstursfjarlægð frá fjórðungssjúkrahúinu á Akureyri. Slíkt er lykilatriði til að unnt sé að nýta húsin fyrir langveik börn, sem geta þurft á bráðaaðstoð að halda.

Á myndinni eru f.v. Georg Páll Skúlason, gjaldkeri, Guðmundur Þ. Jónsson, formaður Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, Ragna K. Marinósdóttir framkvæmdastjóri og Ágúst Hrafnkelsson, formaður Umhyggju.