Umhyggja afhendir Barnaspítalanum miðlæga skráningu fyrir langveik börn

RagnarogRagna
RagnarogRagna

Í vikunni sem leið var Barnaspítala Hringsins formlega afhent svokallað Medical Home, eða miðlæg skráning, fyrir langveik börn. Um er að ræða viðmót ætlað sjúkrarskrárkerfi sem Umhyggja kostaði og vann í samstarfi við Embætti landlæknis og TM software, og er rafræn samantekt sem aðgengileg er öllum heilbrigðisstarfsmönnum.  Samantektin er geymd miðlægt og hefur að geyma upplýsingar um langveika barnið sem teknar eru saman af lækni eða öðrum þeim starfsmanni sem þekkir barnið vel. Sérstakt merki, eins konar viðvörunarfáni, birtist sé sjúkraskrá barnsins opnuð, og þannig getur viðkomandi starfsmaður sett sig greiðlega inn í sögu barnsins, fengið nýjustu upplýsingar um hvernig beri að meðhöndla það og bregðast við í neyðartilvikum. Með þessu móti má tryggja að allar helstu upplýsingar komist áleiðis og um leið hlífa foreldrum við því að þurfa að endurtaka oft og tíðum flókna sjúkrasögu barnsins síns ítrekað. 

Það var Ragnar Grímur Bjarnason yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins sem veitti kerfinu formlega viðtöku. Það er von okkar að rafræna samantektin muni tryggja aukið öryggi og skilvirkni innan heilbrigðiskerfisins.