Umboðsmaður sjúklinga

Fyrir helgi barst Umhyggju fundarboð frá Velferðarnefnd Alþingis. Tilefnið var þingsályktunartillaga um umboðsmann sjúklinga og var Umhyggja  boðuð til að gera grein fyrir umsögn sinni á tillögunni í dag, þann 8. maí. Til upplýsinga þá eru þingsályktanir samþykktir Alþingis og viljayfirlýsingar þingsins. 

Þingsályktunartillagan fjallar um að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem hafi það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga, vera opinber talsmaður þeirra og sinna eftirlit með heilbrigðisþjónustu með tilliti til réttinda sjúklinga. Embættið skal jafnframt sinna leiðbeinandi fræðsluhlutverki.

Umhyggja fagnar og styður umrædda tillögu og telur að um sé að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir alla sjúklinga. Í máli okkar, við velferðarnefndina, kom fram að sjúklingar eru í eðli sínu viðkvæmur hópur, sérstaklega þegar um er að ræða sjúklinga sem eru börn. Börn sem oft hvorki skilja ástand sitt né aðstæður. Börn sem oft og tíðum reiða sig algjörlega á málsvar foreldra sinna eða aðstandenda. Við fjölluðum um stórt hlutverk foreldra í veikindum barna sinna, hvernig það getur verið bæði þungbært og krefjandi og upp getur komið sú staða þar sem foreldrar þurfa að standa vörð um réttindi barnsins síns. Foreldrar geta lent í þeirri stöðu að þurfa verja hagsmuni barnsins eins síns liðs gagnvart fagfólki heilbrigðiskerfisins, eða láta kyrrt liggja treysti þau sér ekki í deiluna. Þá sé mikil sérstaða hér á Íslandi vegna stærðar heilbrigðiskerfisins, einungis einn spítali er á höfuðborgarsvæðinu og fáir sérfræðingar í hverju fagi og því oft og tíðum ómögulegt að fá annað álit.

Umhyggja lagði áherslu á að foreldrar og aðstandendur veikra barna geti leitað til embættis sem hefur það yfirlýsta markmið að gæta hagsmuna sjúklinga og vera talsmaður þeirra. Þar ætti að vera kostur á leiðsögn, hagsmunagæslu, upplýsingum eða aðstoð frá fagaðilum, öðrum en þeim sem sinna heilbrigðisþjónustu við sjúklinginn vegna veikinda hans.

Við vonum innilega að framganga málsins um stofnun umboðsmann sjúklinga, verði farsæl og að slíkt úrræði standi sjúklingum til boða í nánustu framtíð. Þá erum við einnig þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera grein fyrir sjónarmiðum Umhyggju fyrir velferðarnefndinni, með hagsmuni langveikra barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi.

  • Hér má lesa innsenda umsögn Umhyggju.
  • Hér má lesa þingsályktunartillöguna um umboðsmann sjúklinga.
  • Hér má lesa almennt um þingsályktunartillögur inn á heimasíðu Alþingis.