Tónasmiðjan rokkar fyrir langveik börn

Síðastliðinn sunnudag hélt Tónasmiðjan tónleikasýningu í Húsavíkurkirkju sem bar nafnið Hetjurnar, rokkum fyrir langveik börn. Tónasmiðjan sinnir skapandi starfi fyrir ungt fólk á öllum aldri sem hefur það markmið að vera jákvæðar forvarnir til framtíðar. Á tónleikunum komu saman flytjendur á öllum aldri, allt frá 8 ára og upp í rúmlega 70 ára, og voru heiðursgestir Íris Hólm og Siggi Ingimars en allir gáfu vinnu sína til styrktar Umhyggju. Fjölmargir mættu á sýninguna og rokkuðu með, en alls söfnuðust 400.000 krónur sem munu svo sannarlega nýtast  vel í áframhaldandi starf Umhyggju fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra. Við erum Tónasmiðjunni og öllum þeim sem tóku þátt í sýningunni innilega þakklát, þið rokkið!
Við látum nokkrar myndir fylgja með sem fengnar eru af facebooksíðu Tónasmiðjunnar, sem skoða má nánar hér.