Þjónusta við fötluð börn í verkfalli kennara

Umhyggja vekur athygli á nýbirtum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem ákvörðun Múlaþings, um að synja fatlaðri stúlku um þjónustu á skólatíma í verkfalli kennara, var felld úr gildi þar sem hún var ekki í samræmi við lög.

Foreldrar stúlkunnar leituðu til Umhyggju í aðdraganda verkfalls kennara vegna synjunar sveitarfélagsins á beiðni þeirra um þjónustu við fatlaða dóttur þeirra í yfirvofandi verkfalli. Þegar verkfall skall á og stúlkan fékk ekki þjónustu kærði lögfræðingur Umhyggju ákvörðun sveitarfélagsins fyrir hönd foreldra stúlkunnar til úrskurðarnefndarinnar. Áhugasamir geta kynnt sér sjónarmið beggja aðila með því að ýta á hér: Úrskurður.

Mikilvægt er að halda því til að haga að ekki var farið fram á að stúlkunni yrði kennt heldur eingöngu var óskað eftir því að hún fengi þjónustu vegna fatlana sinna, í samræmi við lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Samband íslenskra sveitarfélaga skoraði eingöngu á fulltrúa KÍ í undanþágunefnd að samþykkja að veita sveitarfélögum undanþágu til að kenna fötluðum börnum svo þeim yrði veitt samfelld þjónusta í verkfallinu. Sambandið beitti sér ekki frekar, hvorki í aðdraganda verkfallsins né á meðan því stóð. Sjá hér áskorunina: Áskorun.

Með úrskurðinum er tekið undir túlkun Umhyggju á lögum nr. 38/2018 enda skýrt kveðið á um í lögunum að sveitarfélög skulu bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á sértæka frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst svo og á þeim dögum þegar skólar starfa ekki, öðrum en lögbundnum frídögum.

Verkfall kennara er dæmi um það þegar skólar starfa ekki en í þeim tilvikum eiga fötluð börn rétt á sértækri frístundaþjónustu.

Umhyggja býður foreldrum langveikra barna í Umhyggju og aðildarfélögum Umhyggju upp á gjaldfrjálsa lögfræðiráðgjöf í málum sem varða hagsmuni langveikra barna og tengjast veikindum þeirra. Hægt er að sækja um lögfræðiráðgjöf hér: Lögfræðiráðgjöf.