Sjónarhóll - Opið hús

Sjónarhóll-ráðgjafarmiðstöð og aðildarfélögin ADHD samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Umhyggja, félag til styrktar langveikum börnum; standa fyrir opnu húsi á

Háaleitisbraut 13, sunnudaginn 14. nóv. nk. kl. 14 – 17.

Nú, rúmu ári eftir landssöfnunina „Fyrir sérstök börn til betra lífs“ er langþráðu markmiði náð og Sjónarhóll- ráðgjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir er tekinn til starfa. Enn fremur eru aðildarfélögin fjögur öll flutt undir sama þak að Háaleitisbraut 13. Það er því tilefni til að þakka almenningi dyggan stuðning með því að opna húsið. Við það tækifæri gefst gestum kostur á að kynna sér húsakynnin og það starf sem þar er unnið.   

Kl. 15 mun sönghópurinn Blikandi stjörnur sem starfar á vegum Hins hússins koma fram og syngja nokkur lög í boði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sönghópurinn vann í fyrra til verðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Umsjónarmaður og stjórnandi sönghópsins er Ingveldur Ýr.

Allir velunnarar Sjónarhóls eru hvattir til að líta við á Háaleitisbrautinni þennan dag og halda upp á áfangann með okkur.  

Stjórn, starfsfólk og aðrir aðstandendur Sjónarhóls.