Sálfræðingur ráðinn til starfa hjá Umhyggju

Það er öllum afar erfitt að standa frammi fyrir alvarlegum veikindum eða fötlun barna sinna. Að lenda í slíku áfalli er flestum afar þungbært en að lifa með slíku álagi um lengri eða skemmri tíma mótar alla sem fyrir því verða til lífstíðar. Það er því mikilvægt að allt sé gert til að hjálpa fjölskyldum að takast á við áfallið og langvarandi álagið sem því fylgir. Rannsóknir hafa sýnt að sálrænn stuðningur við þessar aðstæður getur skipt sköpum þegar velferð fjölskyldunnar er skoðaður til langs tíma.

Umhyggja hefur alltaf haft að markmiði að veita fjöskyldum í þessari aðstöðu alhliða stuðning. Því hefur sú nýbreytni verið tekin upp að bjóða fjölskyldum upp á viðtöl við sálfræðing og hefur Andrés Ragnarsson verið ráðinn til starfans.

Hægt er að hafa samband og bóka viðtöl með tölvupósti andres@umhyggja.is eða símleiðis í síma 553 4242 mánudaga, fimmtudaga og föstudaga milli kl. 9 og 12 eða í síma Umhyggju 552 4242 alla daga.

Andrés er með langa reynslu í starfi með fjölskyldum langveikra og fatlaðra barna. Hann er með þriggja ára framhaldsnám í fjölskyldumeðferð. Eftir hann liggur bókin “Setjið súrefnisgrímuna fyrst á yður” sem nýverið er komin út á dönsku í endurbættri útgáfu.