Nýtt Umhyggjublað er komið á vefinn

"Mig langar að segja þér litla sögu. Einu sinni var lítill telpuhnokki. Hún var fyndin og skemmtileg, björt yfirlitum og hæfileikarík á mörgum sviðum. Hún var líka mjög heppin vegna þess að foreldrar hennar höfðu óskað sér að eignast hana í langan tíma og þegar hún fæddist var hún mikið elskuð. En þó svo að hún væri ósköp falleg lítil telpa sem svaf vel á nóttunni og var dugleg að borða þá var hún samt aðeins öðruvísi.“ Með þessu orðum hefst grein, eftir Elvu Dögg Hafberg Gunnarsdóttur, sem hefur fengið heitið Spegill, spegill og fjallar um sjálfsmynd langveikra barna en sjálf er Elva Dögg með Tourette.

Þema Umhyggjublaðsins að þessu sinni er sjálfsmynd og vaknaði sú hugmynd út frá frábæru átaki, #share-yourscar sem Kraftur stóð fyrir nú í byrjun árs. Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, settist niður með okkur og sagði okkur frá þessu hugrakka unga fólki sem tók þátt í átakinu.

Steinunn Þorsteinsdóttir, 21 árs nemi og stjórnarmaður í CP samtökunum, skrifar flotta grein sem nefnist Sjálfsmynd fötlunar – er hún almennt til? þar segir hún m.a.: „Að byggja upp sjálfsmynd er eilíft en þarft verkefni sem allir lifandi einstaklingar fá og því verkefni munum við ekki ljúka fyrr en við höfum yfirgefið þessa jörðu. Sjálfsmyndin er hins vegar einnig okkar helsta gjöf frá okkur til okkar sjálfra því að við byggjum svo ótal margt á henni.“

Við fengum líka hana Berglindi, sálfræðing á Barnaspítala Hringsins, til að spjalla við okkur um sjálfsmynd langveikra barna og foreldra þeirra og þar kom margt áhugavert fram.

Á fallegum fyrsta degi febrúarmánaðar heimsóttum við Akureyri, hittum þar fyrir formann félags langveikra barna á svæðinu og fórum í heimsókn á barnadeildina á spítalanum þar sem var tekið einstaklega vel á móti okkur.Það var frábært að sjá hvað þar er unnið flott starf – en spítalinn stefnir á alþjóðlega gæðavottun árið 2017. Vökudeildin fagnaði 40 ára afmæli nú í byrjun árs og við óskum henni að sjálfsögðu til hamingju með afmælið en í blaðinu er viðtal við Auði Ragnarsdóttur sem sagði okkur frá lífinu á Barnaspítala Hringsins.

Heilsuvera.is er ótrúlega flottur vefur, rafræna hliðið okkar inn í heilbrigðisþjónustuna þar sem við getum nú m.a. endurnýjað lyf og pantað tíma hjá heimilislækni. Við kynnumst þessum flotta vef í blaðinu.

Að lokum viljum við hjá Umhyggju koma þökkum til allra þeirra fjölmörgu sem styrktu félagið á síðastliðnu ári.

Njótið alls sem er.
Steinunn Þorsteinsdóttir,
ritstjóri Umhyggjublaðsins

Hér er hægt að nálgast blaðið