Norræn ráðstefna um þróunaraðstoð við fólk með þroskahömlun

Mánudaginn 25. október verður haldin ráðstefna á Grand hóteli Reykjavík um þróunaraðstoð við fólk með þroskahömlun og fjölskyldur þeirra í þeim löndum sem eru stutt á veg komin í þeim efnum. Meðal málshefjenda á ráðstefnunni verða Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Diane Richler forseti Inclusion International sem er heimssamband systursamtaka Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Að ráðstefnunni standa Landssamtökin Þroskahjálp og  Norræna samvinnuráðið í málefnum fólks með þroskahömlun (NSR) í samvinnu við félagsmálaráðuneyti og Þróunarsamvinnustofnun.  

Ráðstefnan sem hefst kl. 9 og stendur til 13 er öllum opin.

Á ráðstefnunni munu fulltrúar systursamtaka Landssamtakanna Þroskahjálpar á öðrum Norðurlöndum skýra frá þeirri þróunaraðstoð sem þau veita og forseti og framkvæmdastjóri Inclusion International gera grein fyrir stefnu samtakanna m.a. með tilliti til árþúsundastefnu Sameinuðu þjóðanna. Að lokum mun Sighvatur Björgvinsson framkvæmdastjóri  Þróunarsamvinnustofnunar gera grein fyrir þróunaraðstoð Íslendinga.

Fundarstjórar verða þær  Rannveig Traustadóttir prófessor í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og
Guðrún D. Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Dagskrá ráðstefnunnar í heild sinni má sjá á heimasíðu Landssamtakanna Þroskahjálpar www.throskahjalp.is.