Málþing 3. nóvember næstkomandi: Fjórða vaktin - álag og örmögnun

Mánudaginn 3. nóvember næstkomandi mun Umhyggja standa fyrir málþingi um álag og örmögnun foreldra langveikra og fatlaðra barna sem standa hina svokölluðu „fjórðu vakt“ alla daga í umönnun barna sinna. Málþingið verður haldið á Hótel Hilton Nordica milli 12 og 16 og  munu bæði fagaðilar og foreldrar taka til máls. Þær Sara Rós og Lóa, þáttastjórnendur hlaðvarpsins Fjórða vaktin, munu stýra málþinginu. Markmiðið er að efni málþingsins höfði jafnt til foreldra/forsjáraðila langveikra og fatlaðra barna, sem og fagaðila sem starfa innan félagsmála- og heilbrigðisgeirans.

Fjölbreytt dagskrá verður á málþinginu þar sem fjallað verður um hugtakið „burn-on" í tengslum við lífsörmögnun, fjórðu vaktina og fylgifiska hennar ásamt gagnlegum bjargráðum frá foreldrum og fagaðilum. 
 
Doktor Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur mun fjalla um lífsörmögnun hjá foreldrum langveikra barna, m.a. um orsök og afleiðingar.
 
Teresa Mano og Karen van Meeteren eru báðar mæður langveikra barna með umfangsmiklar umönnunarþarfir. Þær munu kynna rannsókn sem þær, ásamt öðrum, unnu að og nefnist "Parents in balance" og fjallar um m.a. um hugtakið "burn-on". Hugtakið lýsir ástandi þar sem einstaklingur er andlega og líkamlega úrvinda, en heldur samt áfram í umönnunarhlutverki sínu. Rannsókn þeirra fjallar m.a. um að áhersla ætti að meginstefnu að vera á líðan umönnunaraðila, þar sem heilsa og vellíðan þeirra hefur djúpstæð áhrif á þroska og lífsgæði einstaklingsins með fötlun. Þá munu þær kynna áhættuþætti og stuðningsúrræði sem byggð eru á niðurstöðum rannsóknarinnar ásamt því að deila sinni persónulegu reynslu.
 
Nína Eck félagsráðgjafi á Landspítalnum mun fjalla um mikilvægi jafningjastuðnings og Bóas Valdórsson framkvæmdastjóri Sjónarhóls segir frá nýstofnuðum jafningjastuðningshópum Sjónarhóls.
 
Anna Dóra Frostadóttir sálfræðingur á Núvitundarsetrinu mun kynna gesti fyrir ACT meðferðarforminu (Acceptance and Commitment Therapy) en ACT er færniþjálfun til að mæta lífsins verkefnum af auknu æðruleysi, dýpri lífsskilningi og sjálfsmildi. Einnig mun hún leiða hópinn í gegnum núvitundaræfingu.
 
Petra Fanney Bragadóttir foreldri langveiks barns mun deila sinni reynslu og bjargráðum sem hafa nýst henni vel.
 
Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig.