Liverpoolklúbburinn á Íslandi styrkir Umhyggju

Liverpoolklúbburinn á Íslandi afhenti Umhyggju í dag styrk að andvirði 500.000 króna í minningu Kamillu Eirar Styrmisdóttur. Styrkurinn er afrakstur uppboðs á áritaðri Liverpooltreyju auk framlags úr styrktarsjóði Liverpoolklúbbsins. 

Treyjan var árituð af Xabi Alonso og hófst uppboðið 23. maí. Því lauk 30. maí og voru það stuðningsmenn Liverpool í Reykjanesbæ sem hrepptu gripinn.

Í tilkynningu frá Liverpoolklúbbnum er sagt frá því að uppboðið hafi verið haldið til minningar um Kamillu Eir Styrmisdóttur sem lést 6. maí síðastliðinn tæplega sex mánaða gömul. Hún hafi barist bæði við hjartabilun og efnaskiptasjúkdóminn MMA og hafi Umhyggja veitt fjölskyldu Kamillu mikinn stuðning bæði meðan á umönnun Kamillu stóð, sem og í kjölfar andláts hennar. 

Við hjá Umhyggju erum hjartanlega þakklát fyrir þennan veglega styrk og mun hann koma að góðum notum til að styðja við fjölskyldur langveikra barna.