Jólakort Umhyggju 2015

Jólakortin eru ómissandi hluti af jólahefðinni hjá mörgum okkar. Það að skrifa kortin, ákveða hvað á að standa í þeim, eftirvæntingin við að taka á móti kortunum, njóta orðanna og ekki síður þeirra fallegu mynda sem prýða kortin.

Við hjá Umhyggju höfum undanfarin ár fengið unga listamenn til liðs við okkur, listamenn sem hafa tengst Barnaspítalanum með einum eða öðrum hætti.

Í ár er listamaðurinn okkar Þórdís Erla Ólafsdóttir. Hún er 11 ára nemandi í Selásskóla. Hún spilar handbolta með Fylki, æfir leiklist, spila á klarínett og er í skólahjómsveit Árbæjar og Breiðholts. Einnig er hún alveg frábær teiknari.

Jólabarn sem elskar að baka smákökur

Þórdís Erla er mikið jólabarn og mamma hennar, Lilja Þorsteinsdóttir, segir að Þórdís Erla byrji að hugsa um jólin um leið og hún er búin að eiga afmæli þann 16. nóvember. „Mér þykir ótrúlega gaman að baka fyrir jólin, piparkökur og smákökur eru í miklu uppáhaldi og það eru ekki komin jól fyrr en við eru búnar að baka allar réttu sortirnar og skreyta piparkökuhúsið á tilheyrandi hátt,“ segir Þórdís Erla.

Hugmyndina að kortinu fékk Þórdís Erla af mynstri á sloppi starfsmanns á leikstofu Barnaspítalans, en hún var þar í biðtíma eftir vikulegar afnæmingarsprautur vegna gras- og birkiofnæmis.

„Ég var að bíða eftir sprauturnar og var spurð hvort mig langaði ekki að taka þátt í að teikna jólakort fyrir Umhyggju. Ég var alveg til í það en hafði bara 30 mínútur til þess. Þegar ég var að hugsa um hvað ég ætti að teikna tók ég eftir uglumynstri á sloppnum sem ein konan var í og ákvað um leið að hafa uglur á mínu korti,“ segir Þórdís Erla.

Kortið er einstaklega fallegt og jólalegt – uglurnar sóma sér vel á trénu innan um litrík snjókornin .

Takk Þórdís Erla

Við hjá Umhyggju þökkum Þórdísi Erlu fyrir fallega jólakortamynd og hvetjum um leið alla til að kaupa þessi fallegu jólakort til að senda vinum og vandamönnum jólakveðju – umhyggjukveðju.

Þau leiðu misstök áttu sér stað að millinafnið hennar Þórdísar Erlu var rangt á jólakortinu og biðjumst við velvirðingar á því.