Hlaupagarpar úr Lindaskóla styrkja Umhyggju

Frá skólaslitum í Lindaskóla þar sem styrkurinn var afhentur.
Frá skólaslitum í Lindaskóla þar sem styrkurinn var afhentur.

Þriðjudaginn 6. júní síðastliðinn voru Umhyggju afhentar 250.000 krónur sem söfnuðust í áheitahlaupi sem krakkarnir í Lindaskóla í Kópavogi tóku þátt í á síðasta skóladegi ársins. Verkefnið, sem er orðinn árviss viðburður, kalla þau Börn styrkja börn, en hlaupið kallast Lindaskólaspretturinn. Hringurinn er 1.25 kílómetrar og safna krakkarnir áheitum frá vinum og vandamönnum að upphæð 200 kr. fyrir hvern hlaupinn hring. Hlaupið er haldið á vordögum á ári hverju og allir í 1. - 7. bekk taka þátt auk eldri nemenda hafi þeir áhuga á. 

María Guðnadóttir íþróttakennari hefur undanfarin ár haft veg og vanda af þessu dásamlega framtaki. Við hjá Umhyggju dáumst að þessum frábæru hlaupagörpum og þökkum krökkunum, Maríu og Lindaskóla innilega fyrir okkur!