Héldu ball til styrktar langveikum börnum

Þeir Daníel, Trausti, Ívar og Leó stóðu fyrir góðgerðarballi í apríl
Þeir Daníel, Trausti, Ívar og Leó stóðu fyrir góðgerðarballi í apríl

Í dag, þriðjudaginn 27. apríl, fengum við hjá Umhyggju dásamlega heimsókn frá þeim Ívari, Trausta, Daníel og Leó sem allir eru nemendur í 10. bekk í Vatnsendaskóla.

Tilefni heimsóknarinnar var peningagjöf sem þeir færðu félaginu en þeir tóku sig til og héldu ball til styrktar langveikum börnum nú fyrr í apríl. Aðdragandi þess var lokaverkefni sem þeir unnu í skólanum þar sem þeir ákváðu að hjálpa öðrum og láta gott af sér leiða um leið og þeir gerðu jafnöldrum sínum kleift að gera sér glaðan dag. Þeir hafa unnið að verkefninu hörðum höndum frá því í haust, en upphaflega stóð til að halda ballið fyrir áramótin sem varð þó ekki af vegna Covid.

„Krakkar á okkar aldri hafa ekki fengið ball í langan tíma vegna Covid og því datt okkur í hug að halda styrktarball. Við kölluðum ballið „Vænginn" og buðum 6 skólum í Kópavogi að taka þátt. Það var mikil stemning og allir skemmtu sér vel," segja þeir félagar. „Það er gaman að geta haft gaman en hjálpað öðrum um leið."

Við þökkum þessum frábæru strákum fyrir þetta dásamlega framtak! Takk Ívar, Trausti, Daníel og Leó - og allir þeir sem mættu á ballið.