Góði hirðirinn styrkir Umhyggju

Markmið Góða hirðisins er að stuðla að endurnotkun, minnka sóun og láta gott af sér leiða, því ágóði af sölu í Góða hirðinum rennur til ýmissa góðgerðarmála. Gott samstarfs starfsmanna endurvinnslustöðva og Góða hirðisins við viðskiptavini okkar, sem bæði gefa notaða húsmuni til Góða hirðisins og versla í versluninni, hefur gert það að verkum að með ári hverju hækkar upphæðin sem hægt er að veita til styrkja.

Á endurvinnslustöðvum SORPU eru sérstakir nytjagámar þar sem fólk getur losað sig við gamla hluti sem enn hafa óskert notagildi. Þannig má forða hlutum með reynslu og sögu, frá endanlegri förgun og finna þeim nýtt hlutverk í nýju umhverfi hjá nýjum eigendum. Þessir hlutir fara svo í sölu hjá Góða hirðinum og á árinu 2006 hafa rúmlega 700 tonn af munum farið í endurnotkun með þessum hætti.

Í Góða hirðinum má finna allt milli himins og jarðar. T.d. sófa, stóla, borð, skápa, þvottavélar, ísskápa og ýmis önnur raftæki. Einnig eru þar smærri hlutir á boðstólnum eins og bækur, plötur, leirtau og ýmsir skrautmunir.

Góði hirðirinn er staðsettur að Fellsmúla 28 en nánari upplýsingar um Góða hirðinn má finna á heimasíðu SORPU http://www.sorpa.is/user/cat/14


Styrkþegar árið 2006

Hjálparstarf kirkjunnar - Framtíðarsjóður

Framtíðarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar styður ungmenni 16-20 ára til náms á framhaldsskólastigi. Markmið þessa styrks er að rjúfa vítahring lítillar menntunar, lágra launa og viðvarandi fátæktar.

Rauði kross Íslands – Framtíð í nýju landi
Framtíð í nýju landi (FÍNL) er þriggja ára þróunarverkefni og er lokaárið að hefjast. Verkefnið hefur það hlutverk að efla víetnömsk ungmenni á aldrinum 15-25 ára til þess að afla sér menntunar og ná markmiðum sínum. Við lok verkefnisins verður til módel sem mun nýtast öðrum innflytjendum og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

Umhyggja
Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum, vinnur að bættum hag barnanna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar og fagfólk innan heilbrigðisgeirans, og einnig þeir sem hafa áhuga á málefninu. Aðildarfélög Umhyggju eru átján talsins.

Bandalag kvenna - Starfsmenntasjóður
Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) var stofnað 1917 og verður því 90 ára á komandi ári. Markmið BKR hefur verið að standa fyrir menningar- og fræðslustarfsemi.
Starfsmenntunarsjóðurinn var stofnaður 1995 til að styrkja ungar konur, sem standa fjárhagslega höllum fæti, hafa hætt námi vegna erfiðra aðstæðna og eru einstæðar mæður, til að afla sér aukinnar menntunar. Frá upphafi hafa 68 styrkir verið veittir úr sjóðnum. Formaður fjáröflunarnefndar sjóðsins er Berta Kristinsdóttir. Á afmælisárinu verður gefið út blað tileinkað starfsemi sjóðsins og viðtöl við styrkþega.

Hjálpræðisherinn
Hjálpræðisherinn og verkefni hans
- Hjálpræðisherinn er alþjóðleg evangelisk hreyfing, hluti af hinni almennu kirkju.
- Boðskapurinn grundvallast á Biblíunni.
- Þjónustan er knúin af kærleika til Guðs.
- Verkefnið er að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist og í nafni hans mæta mannlegri neyð án þess að mismuna fólki.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur
Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur var stofnuð þann 20. apríl árið 1928 og var eitt fyrsta verkefni nefndarinnar að vinna að því að allar einstæðar mæður, ekkjur, ógiftar og fráskildar, fengju rétt til að fá greidd meðlög með börnum sínum. Jafnframt var unnið að því að þær fengju mæðralaun sem nægðu til að tryggja afkomu heimilanna. Nefndin er samstarfsverkefni 8 kvenfélaga sem eru: Kvenréttindafélag Íslands, Hvítabandið, Hvöt, Félag sjálfstæðiskvenna, Félag háskólakvenna, Félag framsóknarkvenna, Kvenfélag Alþýðuflokksins, Thorvaldsensfélagið og Húsmæðrafélag Reykjavíkur. Stöðugt fjölgar þeim sem leita til nefndarinnar og í dag eru það ekki eingöngu einstæðar mæður, við hafa bæst karlmenn, bæðir einstæðir og með forsjá barna, en einnig er áberandi hve öryrkjum og eldri borgururm hefur fjölgað á síðustu árum.

Mæðrastyrksnefnd Kópavogs
Mæðrastyrksnefnd Kópavogs er stofnuð af Kvenfélagasambandi Kópavogs 1968 og starfar innan vébanda þess. Að sambandinu standa kvenfélögin Dimma, Freyja og Kvenfélag Kópavogs og það eru konur frá þeim félögum sem leggja fram alla sjálboðavinnu í sambandi við starfsemi nefndarinnar. Tilgangur nefndarinnar er líknarstarfsemi, að styrkja bágstaddar mæður og aðra sem á hjálp þurfa að halda eftir því sem aðstæður leyfa.

Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar
Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar starfar á vegum Bandalags kvenna sem samanstendur af öllum kvenfélögum í Hafnarfirði. Í henni eru nú starfandi 5 konur. Formaður, gjaldkeri og meðstjórnendur. Nefndin er sjálfboðavinna þeirra kvenna sem í henni starfa. Hún hefur tengsl við kirkjurnar þrjár í Hafnarfirði en einnig Rauða krossinn, félagsþjónustuna, skólaskrifstofu, heimaþjónustuna og ungbarnaeftirlitið á Heilsugæslustöðvunum. Fjöldi fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga hafa styrkt nefndina á hverju ári og fá þau bestu þakkir fyrir. Með þeirra hjálp hefur tekist að gleðja marga sem hafa þurft á því að halda.