Frábærlega heppnaður Umhyggjudagur

Sunnudaginn 31.ágúst síðastliðinn var Umhyggjudagurinn haldinn hátíðlegur í annað sinn. Hátíðahöldin fóru fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum á einum fallegasta degi sumarsins og tóku mörg þúsund gestir þátt í fjörinu. Allar fjölskyldur voru boðnar velkomnar og fengu allir sem skráðu sig til leiks frítt inn í garðinn á milli 12 og 16, auk þess sem boðið var upp á veitingar og skemmtiatriði.

Leikarar úr Leikhópnum Lottu voru með tvö stórskemmtileg atriði, auk þess sem þau röltu um garðinn og heilsuðu upp á gesti þess á milli. Grillaðar voru yfir 1000 pylsur frá Bæjarins bestu og hægt var að fá frían ís í boði Emmessíss. Þá bauð Bakarameistarinn gestum upp á ljúffenga Umhyggjuköku og Nathan og Olsen sáu til þess að Rynkebydjúsinn svalaði þorsta gesta. Börnin voru svo leyst út með glaðningi; Umhyggjusundpoka, buffi, endurskinsmerki og tattúi.

Dagurinn heppnaðist stórkostlega í alla staði og erum við innilega þakklát öllum þeim sem gerðu hann að veruleika. Við þökkum sérstaklega Team Rynkeby liðinu ótrúlega, sem hjólar til styrktar Umhyggju, fyrir ómetanlega aðstoð, við þökkum foreldrum úr félaginu sem lögðu okkur lið og eins þökkum við þeim fyrirtækjum sem gerðu okkur kleift að bjóða upp á veglegar veitingar.