Einstakir drengir á Highbury-leikvanginn í Lundúnum

Farið var út til Lundúna föstudaginn 21. apríl. Á laugardags­morguninn var farið á Highbury, leikvang Arsenal, til að sjá síðasta Lundúnaslaginn sem leikinn verður á þeim velli en Arsenal tekur í notkun nýjan völl næsta haust. Fyrir leik upplifðu strákarnir stemninguna á vellinum innan um gallharða fylgismenn Arsenal í norðurstúku vallarins. Ekki má gleyma Arsenal-treyjunum og -húfunum sem strákarnir fengu til þess að skrýðast. Knattspyrnuleiknum lauk síðan með jafntefli, 1-1.

Auk þess að sjá fótboltaleikinn fóru strákarnir m.a. í skemmtiferð í Hyde Park-garðinn og í leikhús að sjá söngleikinn „We Will Rock You“ með tónlist hljómsveitarinnar Queen. Hópurinn kom heim eftir stranga en skemmtilega ferð sunnudaginn 23. apríl. Ferðin á Highbury var skipulögð í samstarfi við Skjá 1 og þótti heppnast vel í alla staði.

Með drengjunum voru m.a. nokkrir aðstandendur þeirra, þ. á m. Gunnhildur Hreinsdóttir. Hún segir að ferðin hafi verið stórkostlegt ævintýri og kærkomið fyrir drengina. „Það var dekrað við þá allan tímann,“ segir Gunnhildur. „Að vera boðið til útlanda af fyrirtæki úti í bæ og að upplifa svona stórkostlega helgi léttir lund þeirra mikið. Það gefur okkur öllum mikið, drengjunum og aðstandendum þeirra, að fyrirtæki skuli hugsa til langveikra barna og styðja við bakið á þeim. Við viljum þakka Actavis kærlega fyrir þessa frábæru ferð sem verður tvímælalaust lengi í huga okkar sem fórum."

Á myndinni má sjá duglega ferðalanga á Highbury: Magnús Magnússon, lengst til vinstri, þá Sigmar Atli Guðmundsson og lengst til hægri er Benedikt Vagn Bjarnason. Fyrir aftan þá stendur Hörður Konráðsson.