Aukinn stuðningur við foreldra og fjölskyldur sjúkra barna

Á árinu 2005 var greiddur ferðastyrkur og uppihaldskostnaður fyrir 55 börn sem fengu meðferð á erlendum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Greiddur var ferðastyrkur fyrir báða foreldra í 28 tilfellum, en með reglugerðarbreytingunni nú fá báðir foreldrar ferðastyrk og tvöfaldast þannig sá fjöldi foreldra sem nú nýtur styrkjanna. Styrkir til beggja foreldra hefur verið baráttumál hjá Umhyggju og hjá foreldrum langveikra barna og lýstu fulltrúar Sjónarhóls og Umhyggju mikilli ánægju sinni með breytinguna þegar ráðherra kynnti fulltrúum félagsins hana í morgun. Réttarbótin sem í reglugerðinni felst gagnast m.a. foreldrum barna með missmíð á andliti eða eyrum, þeirra barna sem þurfa kuðungsígræðslu, og eru með skarð í vör og góm. Þá eru báðir foreldrar barna styrktir sem þurfa í flóknar rannsóknir, leisimeðferð, eru með æðamissmíð í útlimum eða eru merggjafar. Reglugerðin tekur þegar gildi.