Aðgangur að Fontana fylgir dvöl í sumarhúsinu í Brekkuskógi

fontanaÞær fjölskyldur sem dvelja í sumarhúsi Umhyggju í Brekkuskógi eiga nú kost á að fá dagpassa í Fontana á Laugarvatni. Dagpassinn gildir fyrir tvo fullorðna og fjögur börn að átján ára aldri. Hægt er að nálgast passann á skrifstofu Umhyggju, Háaleitisbraut 11-13, áður en haldið er í Brekkuskóg.

Fontana er nýlega opnaður baðstaður við Laugarvatn, sem ákvað að styrkja Umhyggju með þessum hætti. Náttúruböðin bjóða fyrst og fremst uppá að upplifa hina einstöku GUFU beint yfir gufuhvernum fræga sem heimamenn og gestir hafa nýtt til heilsubaða að minnsta kosti síðan 1929. Auk þess er unnt að baða sig í heilsubaðvatni í þrískiptri baðlaug, dvelja í heitri saununni, ganga í volgum sandinum eða slaka á í fallegum garðinum. Jafnframt gefur dvöl í böðunum ávallt tækifæri til að skynja hina síbreytilegu íslensku veðráttu og njóta fallegrar fjallasýnar.

Nánar má lesa um Fontana á fontana.is. Er fyrirtækinu þakkað kærlega fyrir stuðninginn.