Vinkonur frá Selfossi styrkja Umhyggju

Andrea Lilja, Friðrika Sif og Eva Katrín afhenda styrkinn.
Andrea Lilja, Friðrika Sif og Eva Katrín afhenda styrkinn.

Í dag, fimmtudaginn 1. september, fengum við hjá Umhyggju heimsókn frá þremur snillingum frá Selfossi. Um var að ræða vinkonurnar Andreu Lilju Sævarsdóttur 9 ára, Friðriku Sif Sigurjónsdóttur 8 ára og Evu Katrínu Daðadóttur 9 ára og komu þær færandi hendi með rúmlega 50.000 krónur handa félaginu. Þær opnuðu búð í bílskúrnum á bæjarhátíð sem haldin var í ágúst og buðu þar til sölu bleikar vörur svo sem kökur, sælgæti og kandífloss. Allur ágóðinn af sölunni var látinn renna til Umhyggju.  „Við fengum þessa hugmynd í febrúar að opna búð á hátíðinni Sumar á Selfossi og okkur langaði að gera eitthvað gott fyrir börn sem eiga erfitt. Við vorum með búðina í bleika hverfinu og gerðum allt sjálfar, skreyttum og bökuðum. Við erum búnar að vera vinkonur lengi og erum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt, eins og til dæmis setja upp leiksýningar og leika okkur."

Við þökkum þeim Andreu Lilju, Friðriku Sif og Evu Katrínu innilega fyrir frábært framtak og dugnað!