Team Rynkeby Ísland afhenti Umhyggju styrktarfé

Við hjá Umhyggju erum þakklát og meyr eftir helgina, en laugardaginn 24. september afhenti hjólalið Team Rynkeby Ísland Umhyggju kr. 35.310.463 krónur sem söfnuðust með aðstoð fyrirtækja og almennings í landinu.

Undanfarið ár hefur liðið hjólað af miklum móð bæði innanlands sem utan í þeim tilgangi að safna fé til handa langveikum börnum með alvarlega sjúkdóma, einkum til að styðja við rannsóknartengd verkefni. Í vetur sem leið fóru æfingarnar fram hérlendis í misgóðu veðri og mismiklum vindi, á milli þess sem unnið var að söfnuninni með aðstoð fyrirtækja og almennings. Í júlí síðastliðnum lá svo leiðin yfir á meginland Evrópu og hjólaði liðið á einni viku frá Kolding í Danmörku til Parísar í Frakklandi, alls 1300 kílómetra.  Liðið var skipað 41 hjólara og 10 manna aðstoðar- og fylgdarliðið. Hjólararnir eru á ýmsum aldri og höfðu margir þeirra aldrei sest á racer í upphafi vetrar!

Takk elsku Team Rynkeby og allir sem lögðu hönd á plóg í þessari vegferð!