Félagið Alúð styrkir Umhyggju

Á dögunum komu þessar dásamlegu konur, þær Jóhanna og Hildur, færandi hendi til Umhyggju með styrk upp á rúmlega 700.000 krónur. Fjármunirnir eru komnir frá félaginu Alúð, félagi um vakandi athygli og núvitund sem þær, ásamt öðrum sálfræðingum, stofnuðu árið 2012. Starf Alúðar sneri að núvitund með börnum og unglingum annars vegar og að fullorðnum hins vegar. Félagið, og konurnar í stjórn þess, þær Margrét Bárðardóttir, Elísabet Gísladóttir, Helga Valtýsdóttir auk Hildar Jónsdóttur og Jóhönnu V. Haraldsdóttur, lagði áherslu á fræðslu um núvitund og samkennd og hélt m.a. málstofur og fyrirlestra, litlar samkomur, ráðstefnur, málþing með erlendum fyrirlesurunum auk hlédrags undir Eyjafjöllum. Starf félagsins var blómlegt upp úr 2012 um nokkurra ára skeið en frá árinu 2020 hefur ekki verið starfsemi í félaginu og var félagið lagt niður í kjölfarið. Ákveðið var að sjóður félagsins skyldi renna til Umhyggju, sem við erum innilega þakklát fyrir. Fjármunirnir munu nýtast einstaklega vel í áframhaldandi starf Umhyggju sem snýr að núvitund fyrir foreldra langveikra barna.