Brynjar Logi hjólaði 115 km til styrktar Umhyggju

Fimmtudaginn 26. maí hjólaði Brynjar Logi Friðriksson 115 km leið með 1093 metra hækkun til styrktar Umhyggju. Hjólatúrinn var liður í lokaverkefni Brynjars Loga, sem er nemandi í 10. bekk í Réttarholtsskóla, en hann ákvað að safna áheitum til styrktar Umhyggju. Hann lagði af stað úr smáíbúðahverfinu að morgni uppstigningadags og hjólaði sem leið lá að Gljúfrasteini í Mosfellsdal. Þaðan lá leiðin að Kjósarskarðsafleggjaranum og inn í Kjósarskarð, hringinn í kringum Meðalfell og þaðan tilbaka til Reykjavíkur. Markmið Brynjars Loga var að hjóla 110 kílómetra með 1000 metra hækkun á innan við 6 klukkutímum. Ferðin tók alls 5 klukkustundir og 45 mínútur svo takmarkinu var náð og gott betur!

Alls söfnuðust kr. 127.150 og kom Brynjar Logi færandi hendi á skrifstofu Umhyggju í dag, mánudaginn 30. maí. „Þetta var mjög skemmtilegt verkefni, en líka krefjandi vegna töluverðs mótvinds í byrjun í Mosfellsdal og Kjósarskarði. Eftir það var þetta bara tóm hamingja," segir Brynjar Logi.

Við hjá Umhyggju erum honum hjartanlega þakklát. Það er frábært að sjá ungt, flott fólk með hugsjónir láta verkin tala með þessum hætti og er Brynjar Logi sannkölluð fyrirmynd.