Breytt verklag Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna vegna bifreiðastyrkja til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum vegna barna

Tryggingastofnun, Umhyggja og Landssamtökin þroskahjálp vilja vekja athygli á breyttu verklagi Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna vegna bifreiðastyrkja til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum vegna barna. Breytt verklag er vegna nýrrar túlkunar Úrskurðanefndar almannatrygginga á ákv.laga um bifreiðastyrki.

Foreldrar hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna hafa hingað til getað fengið uppbót skv. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og styrk, að andvirði 1.200.000 kr. skv. 4. gr. sömu reglugerðar. Úrskurðarnefndin taldi hins vegar að þessir aðilar geti einnig átt rétt á 50-60% styrk skv. 5. gr. rgl. að uppfylltum öðrum skilyrðum. Þessi breyting tekur eingöngu til þeirra barna sem eru verulega hreyfihömluð og uppfylla þau sérstöku skilyrði sem 5. gr. reglugerðarinnar setur til þess að hægt sé að kaupa sérútbúna og dýra bifreiða vegna mikillar fötlunar.

Rétt er að undirstrika að hér er ekki um almennan rétt foreldra hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslu að ræða heldur verða þeir að uppfylla önnur ákvæði sem sett eru fyrir úthlutun styrksins. Tryggingastofnun metur hvort skilyrði eru uppfyllt í hverju tilviki fyrir sig.

Skilyrðin  eru m.a eftirfarandi:

  • „Bifreiðin sé nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi  er hömluð eða vantar líkamshluta“
  • „Einstaklingur kemst ekki af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar“
  • „Heimildin á þó einungis við ef einstaklingurinn ekur sjálfur eða annar heimilismaður “

Ástæða er því til fyrir þá sem telja sig uppfylla framangreind skilyrði  að kanna sinn rétt og kynna sér betur ákvæði 10. gr laga nr 99/2007 um félagslega aðstoð  og reglugerðar nr 170/2009.