Umönnunarréttur barna

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur til meðferðar frumvarp til breytingar á barnalögum nr. 76/2003. Frumvarpið hefur tvisvar áður verið flutt á þinginu, fyrst árið 2021. Lagt er til að kveðið verði sérstaklega á um það í lögunum að í forsjárskyldu felist að veikt eða slasað barn eigi rétt á umönnun foreldra sinna. Samhliða þessu er lagt til að skipa starfshóp til að kanna hvernig foreldrum barna verði gert kleift að rækja þessa skyldu með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins eða með setningu reglna á þeim vettvangi.

Umhyggja fagnar eindregið þessum fyrirhuguðu breytingum og styður frumvarpið til breytinga á lögunum og skipun starfshópsins, líkt og kom fram í umsögn félagsins árið 2021. Umhyggja telur að um sé að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir öll börn í landinu og ekki síst þau börn sem glíma við langvinn veikindi. Veikindadagar ættu að fylgja hverju og einu barni, enda ætti réttur hvers barns til umönnunar foreldris að vera sá sami óháð systkinafjölda. Þá lagði Umhyggja einnig fram ósk um endurskoðun á almennu reglu vinnumarkaðarins sem kveður á um að veikindadagar barna gildi aðeins fyrir börn fram að 13 ára aldri. Brýnt sé að öllum þeim börnum sem eru með umönnunargreiðslur fylgi veikindaréttur til 18 ára aldurs.

Umhyggja fagnar því að þetta réttindamál sé í ferli og vonar að frumvarpið og vinna væntanlegs starfshóps muni skila sér í lagabreytingum og útfærslu á vinnumarkaði sem verði til hagsbóta fyrir öll börn í landinu. Umhyggja hefur áður vakið athygli á umræddu réttindamáli m.a. í viðtali sem tekið var við framkvæmdarstjóra Umhyggju árið 2021. Sjá nánar hér:https://www.visir.is/g/20212141647d/thad-a-ekki-ad-skipta-mali-hvar-foreldrar-vinna?fbclid=IwAR0gvvLk6aiIXxlNEgwd-o0oVNIJxU-At9vWCG3xrhHoQRIT5fOd4nhKIUk.

Hér má nálgast umsögn Umhyggju frá árinu 2021 og hér má nálgast frumvarpið.