KB banki gefur Umhyggju kennsluforrit fyrir börn

KB banki hefur gefið Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, 200 eintök af kennsluforritinu Stærðfræðisnillingarnir - Tívolítölur. Um er að ræða nýjan tölvuleik á geisladiski þar sem Lúlli Ljón og fleiri teiknimyndapersónur leiða börn frá 5 ára aldri á skemmtilegan hátt í gegnum grundvallarþætti stærðfræðinnar.

Forritið er byggt upp á grunnþjálfun í stærðfræði og byggir á námsefni yngri bekkja grunnskóla. Á myndrænan hátt er barnið þjálfað í tölum, samlagningu, frádrætti flokka og raða ásamt léttri margföldun og deilingu. Hentar öllum börnum sem geta stjórnað tölvumús, og getur auðveldað nemendum með námsörðugleika nám í stærðfræði. Þeir foreldrar sem eru félagsmenn Umhyggju eða í aðildarfélögunum og telja börn sín hafi not fyrir slíka aðstoð geta haft samband við skrifstofu Umhyggju í síma 552-4242.

Umhyggja þakkar KB banka kærlega fyrir þessa góðu gjöf.

Á myndinni sjást, frá vinstri Friðrik S. Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs KB banka, Valdís Guðlaugsdóttir frá markaðsdeild KB banka, Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju og Ágúst Hrafnkelsson formaður Umhyggju.