Slökun fyrir börn

Á undanförnum áratugum hefur streita tengd hraða og auknum efnislegum og félgaslegum kröfum aukist til muna. Hversdagur íslenskra barna hefur tekið töluverðum breytingum. Nú verja mörg þeirra miklum hluta dagsins í skóla eða dagvistun, á frístundaheimilum og í þaulskipulögðu tómstundastarfi innan um fjölda annarra barna með tilheyrandi áreiti. 

Með aukinni áherslu nýrra kennsluhátta á opið rými, skóla án aðgreiningar og samkennslu aukast líkur á hávaða og áreiti enn frekar. Utan hins hefðbundna vinnudags hafa nútímabörn mörg hver að auki aðgang að tölvuleikjum, sjónvarpi og annarri afþreyingu sem áreitir skilningarvitin og er sjaldan til þess fallin að auðvelda slökun.

Sé barn að glíma við fötlun eða langvarandi sjúkdóm sem hefur í för með sér lífsgæðaskerðingu, hamlanir, erfiðar meðferðir eða sjúkrahúslegur magnast streituvaldar í lífi þeirra og annarra fjölskyldumeðlima, foreldra og systkina, til muna. Samfara þessu eru áhyggjur af framtíðinni, kvíði vegna yfirvofandi aðgerða, meðferða eða annarra áskorana til þess fallnar að auka enn fremur álagið og hafa neikvæð áhrif á andlega líðan.

Ljóst er að viðvarandi áreiti veldur okkur flestum streitu. Þegar við upplifum streitu fer af stað forðunarviðbragð í líkamanum og ýmsar lífeðlislegar breytingar eiga sér stað. Blóðþrýstingur hækkar, streituhormón flæða inn í blóðrásina og líkaminn býr sig undir átök. Sé áreitið langvarandi reynir líkaminn að aðlaga sig að ástandinu. Þrátt fyrir það viðhelst innra með okkur hátt öruvnarstig sem dregur úr orku, veikir ónæmiskerfið smátt og smátt og ýtir undir vandamál á borð við svefnerfiðleika, magasár, vöðvabólgur og háan blóðþrýsting.

En hvernig má draga úr streitu hjá börnum og bæta þar með líðan þeirra? Slökun og hugleiðsla er ævaforn iðja sem hefur í gegnum aldirnar verið viðhöfð um víða veröld, þvert á landamæri menningarheima og trúarbragða. Þegar við slökum á fer af stað slökunarviðbragð í líkamanum sem er andhverfa áðurnefnds forðunarviðbragðs. Þannig hægist á öndun og hjartsláttur, vöðvaspenna og blóðþrýstingur fara aftur í eðlilegt horf á um það bil þremur mínútum. Með hugleiðslu er hægt að hafa áhrif á þessar lífeðlislegu breytingar, jafnvel í streituvaldandi aðstæðunum sjálfum.

Börn eiga flest auðvelt með aðlögun og að tileinka sér nýjungar. Með því að kynna þau fyrir slökun á unga aldri aukast líkurnar á því að þau geti síðar í lífinu tekist á við streitu og áreiti á uppbyggilegan og heilbrigðan hátt. Þannig getur þjálfun í slökunarhugleiðslu mögulega gagnast þeim og aukið lífsgæði þeirra hér og nú, um leið og hún er forvörn til framtíðar.

Hægt er að nota mismunandi aðferðir til slökunar. Hér á eftir koma dæmi um tvær æfingar sem hægt er að gera með börnum til að ná fram slökun.

Slökunaræfing - að kreista

Fljótleg æfing sem hentar börnum vel til að slaka á líkamanum.

Náðu í kodda. Fylltu lungun af lofti í gegnum nefið. Meðan þú andar að þér skaltu kreista koddann eins og fast og þú getur. Jafnvel þótt koddinn sé lítill skaltu kreista hann með öllum líkamanum. Vefðu handleggjunum um koddann, herptu andlitið og spenntu vöðvana í fótleggjunum. Haltu spennunni í öllum kroppnum meðan þú telur 1-2-3 í huganum.

Svo losar þú takið á koddanum og slakar á líkamanum meðan þú andar út og telur 1-2-3-4.

Meðan á slökuninni stendur skaltu anda rólega og djúpt inn (telur 1-2-3) og út (telur 1-2-3-4).

Andaðu síðan að þér og kreistu koddann og líkamann aftur.

Gerðu þetta fimm sinnum; anda inn, kreista og halda, slaka og anda út. Anda inn og út einu sinni án þess að kreista og síðan skaltu byrja upp á nýtt.

Slökunarhugeiðsla - Aladdín og töfrateppið 

Úr bókinni Aladdín og töfrateppið og aðrar ævintýrahugleiðslur fyrir börn eftir Marnetu Viegas. Börnin eru látin koma sér vel fyrir, helst liggjandi og loka augunum á meðan lesið er fyrir þau með rólegri og hlutlausri röddu. Þessi æfing er tilvalin á háttatíma.

                                                   -------------------

Aladdin og töfrateppið

Lokaðu augunum, vertu grafkyrr og ímyndaðu þér að þú haldir á töfrateppi Aladdíns. Skoðaðu það aðeins nánar. Þetta er dásamlegasta teppi í heimi, búið til úr skínandi gullþráðum. Teppið er litríkt og fallega skreytt. Einbeittu þér svolitla stund að skrautlegu mynstrinu og skærum litunum.

Sestu á mitt töfrateppið og krosslegðu fótleggina. Nú skaltu fara með töfraorðið abrakadabra – og þá finnurðu hvernig teppið lyftir sér mjúklega frá jörðinni. Þegar þú ákveður að fara hærra þá svífur teppið upp. Þú verður léttari og léttari, slakar betur og betur á og þér líður svo vel. Þú átt heima uppi í loftinu. Ef þig langar að svífa gegnum dúnmjúk skýin þá geturðu gert það. Þú getur líka beðið teppið að herða aðeins á sér og ferðast áfram. Þú veist að það ert þú sem stjórnar og ákveður að taka dýfur, snúninga, kollhnísa og heljarstökk í loftinu. Kögrið á teppinu flöktir í vindinum. Finndu hvernig hárið flaksast í golunni og hvernig skýin strjúkast við kinnina á þér. Þú fyllist svo miklum krafti á fluginu. Þú getur hvenær sem er beðið teppið að hægja á sér eða svífa á staðnum ef þú vilt staldra við og skoða fallegt landslagið niðri á jörðinni. Kannski langar þig að svífa yfir eyðimörk eða snæviþöktum fjöllum eða grænbláum sjónum. Það ert þú sem ræður. Þú hefur frelsi til að upplifa þitt eigið ævintýri og kanna ný og spennandi lönd. Og þegar þú segir til þá svífur töfrateppið aftur niður til jarðarinnar.

Og núna, þegar þú ert tilbúinn, skaltu hreyfa fingur og tær, teygja úr þér og opna augun.

Ég er frjáls. Ég er frjáls.