Um skammdegisþunglyndi

Á hverju ári er ákveðinn hópur fólks á norðlægum slóðum sem finnur til vaxandi þreytu, slens og drunga þegar daginn tekur að stytta á haustin. Þegar vorið kemur með bjartari dögum hverfa einkennin hins vegar eins og dögg fyrir sólu. Við tölum gjarnan um hugtakið skammdegisþunglyndi sem samnefnara þessara einkenna.

En hvernig lýsir skammdegisþunglyndi sér? Hvernig er raunverulegt skammdegisþunglyndi frábrugðið vægu orkuleysi og aukinni löngun landans til að sofa út á morgnana? Hversu algengt er það og hverjar eru taldar orsakir skammdegisþunglyndis? Og síðast en ekki síst: Hvað er til ráða þegar um skammdegisþunglyndi er að ræða?

Skammdegisþunglyndi

Einkenni

Í raun og veru er skammdegisþunglyndi ekki frábrugðið annars konar þunglyndi, ef frá er talin sú staðreynd að það er bundið við ákveðna árstíð. Helstu einkenni eru mikil þreyta og erfiðleikar við að vakna á morgnana, aukin löngun í kolvetnisríka og sæta fæðu, orkuleysi og einbeitingarskortur. Sömuleiðis getur fólk fundið til minnkaðrar löngunar til samvista við aðra, aukinnar neikvæðni í hugsun og vonleysistilfinningar.

Mikilvægt er að gera greinarmun á raunverulegu skammdegisþunglyndi og vægari einkennum, svo sem löngun fólks til að sofa lengur í myrkrinu á morgnana og þeim örlitla drunga sem margir finna til þegar lífið kemst í fastar skorður eftir jólahátíðina og dimmir kaldir mánuðir teygja úr sér á almanakinu fram að næsta fríi. Háveturinn er að mörgu leyti mikill álagstími hjá flestum, hvort heldur er á vinnumarkaðinum eða í skólum. Algengt er að verkefnamagn og prófatarnir séu í hámarki á þessum tíma en einnig upplifa sumir streitu tengda jólum og spennufall að þeim loknum. Því  er ekki óeðlilegt að mann langi helst að kúra uppí sófa við kertaljós þá daga sem vetrarlægðirnar geysa og sólin nær vart upp fyrir sjóndeildarhringinn á hádegi.

Þegar um raunverulegt skammdegisþunglyndi er að ræða er staðan hins vegar öllu alvarlegri. Í þeim tilvikum finnur fólk gjarnan til mjög slæmra einkenna daglega yfir langan tíma og kemur ástand þess verulega niður á lífsgæðum og afköstum í leik og starfi. Í verstu tilfellunum getur fólk orðið óvinnufært með öllu og jafnvel íhugað að taka líf sitt þar sem það sér enga leið út úr vanlíðaninni. Mikilvægt er  að leita sér hjálpar í tæka tíð, einkum ef vanlíðanin er orðin viðvarandi yfir einhvern tíma.

Orsakir og tíðni

Orsakir skammdegisþunglyndis eru ekki að fullu kunnar en þó er ljóst að birta – eða skortur á henni öllu heldur – hefur mikið þar að segja. Þetta sést best í þeim tilfellum þar sem fólk þjakað af skammdegisþunglyndi ferðast til suðlægari landa og losnar við einkenni sín á örfáum dögum. Þegar það snýr aftur norður á bóginn birtast einkennin á ný. Ein af kenningunum sem uppi er um orsök skammdegisþunglyndis er að um röskun á dægursveiflu sé að ræða sem leiði til þunglyndiseinkenna. Dægursveifla fólks, oft kölluð líkamsklukka – þ.e. það jafnvægi sem skapast milli svefns og vöku – stjórnast að einhverju leyti af hormóninu melatóníni, en melatónín hefur það hlutverk að gera fólk syfjað þegar dimmir. Í myrkrinu eykst framleiðsla melatóníns, en minnkar svo á ný um leið og birtir að nýju að morgni. Yfir háveturinn þegar myrkrið er ráðandi viðhelst framleiðsla melatónínsins sökum birtuskorts og leiðir til aukinnar þreytu og slens. Einnig er líklegt að boðefnið serótónín eigi þar hlut að máli, en skortur á því getur leitt til þunglyndiseinkenna.

Hvað tíðni skammdegisþunglyndis varðar þá hækkar hlutfallið eftir því sem norðar dregur í heiminum. Þannig þekkist skammdegisþunglyndi ekki við miðbaug, eykst eftir því sem norðar dregur í Bandaríkjunum og hefur mælst um 10% í Alaska og nyrst í Noregi. Rannsóknir hafa þó leitt í ljós að Íslendingar virðast vera óvenju ónæmir fyrir skammdegisþunglyndi, miðað við staðsetningu okkar á hnettinum. Þannig hafa rannsóknir sýnt að aðeins 3,8% Íslendinga þjáist af skammdegisþunglyndi, sem er í ósamræmi við þá almennu reglu að tíðni skammdegisþunglyndis aukist eftir því sem norðar dregur. Athygli hefur vakið að þegar Vestur-Íslendingar í Kanada voru rannsakaðir kom hið sama í ljós – þeir sýndu minni einkenni skammdegisþunglyndis en aðrir íbúar á svipuðum slóðum. Leiða má að því líkur að um aldalanga aðlögun sé hér að ræða, þ.e. að í gegnum aldirnar hafi íbúar, einangraðir á Íslandi, aðlagast skammdeginu. Vera má að þeir sem ekki þoldu skammdegið hafi verið ólíklegri til að eignast maka og geta af sér afkvæmi og þannig hafi ákveðið náttúruval átt sér stað.

Úrræði

En hvað er til ráða við almennu vetrarsleni annars vegar og skammdegisþunglyndi hins vegar? Þegar um væg þreytueinkenni og orkuleysi – svokallaðan vetrarblús – er að ræða er ágætt að hafa í huga mikilvægi daglegrar hreyfingar, einkum útivið yfir bjartasta tíma dagsins, sem og neyslu hollrar og næringarríkrar fæðu. Einnig ber að passa upp á að svefnmálin séu í föstum skorðum og getur verið gott að lengja jafnvel svefntímann um eina klukkustund á sólarhing, ef unnt er.

Í þeim tilfellum þar sem fólk þjáist af alvarlegri einkennum er mikilvægt að taka málin föstum tökum sem fyrst. Hvað varðar meðferðir sem gefið hafa góða raun í því skyni ber fyrst að nefna „ljósameðferð“. Í slíkum tilfellum er um að ræða sérstaka gerð lampa sem gefa frá sér birtu sem líkist raunverulegri dagsbirtu, en fólki ber að hafa slíkan lampa tendraðan í nokkrar klukkustundir daglega. Með þessu móti má blekkja heilann og koma efnabúskap hans í réttar skorður.

Í öðru lagi ber að nefna meðferðarform sem notuð eru við almennu þunglyndi, svo sem hugræna atferlismeðferð og lyfjagjöf. Í hugrænu atferlismeðferðinni er fólki kennt hvernig það getur breytt neikvæðum hugsanamynstrum sínum og þannig haft áhrif á líðan sína og hegðun. Í erfiðustu tilvikunum getur lyfjagjöf reynst nauðsynleg þar til ástandið skánar með hækkandi sól.

Höfum hugfast að vera góð við hvert annað í skammdeginu, njóta þess sem veturinn hefur upp á að bjóða og hikum ekki við að tjá líðan okkar og leita aðstoðar ef eitthvað bjátar á.