Saga

Uppruni Umhyggju

Það er talið mikilvægt að þekkja sögu sína og að vera sér meðvitaður um uppruna sinn og rætur.

Félagið Umhyggja á sér rætur í og er sprottin frá norræna félaginu Nordisk förening for syke barns behove, NOBAB. Í byrjun var félagið Umhyggja kölluð Íslandsdeild norrænu samtakanna um þarfir sjúkra barna.

Ivonny Lindquist, þáverandi deildarstjóri hjá "Social Styrelsen” í Stokkhólmi kom fyrst upp með hugmyndina um að stofna þyrfti norræn samtök um þarfir barna á sjúkrahúsum. Svo þróaðist hugmyndin hjá henni og norrænum samstarfsmönnum hennar, m.a. Sigríði Björnsdóttur, þannig að ákveðið var að félagið skyldi nú heita “Norræn samtök um þarfir veikra barna”.

Um nokkurra ára skeið hafði verið í gangi umræða varðandi þá staðreynd að mörg börn voru í andlegu og tilfinningalegu ójafnvægi eftir að þau höfðu dvalið á spítala. Á sjöunda áratugnum var í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð byrjað að rannsaka og athuga sérstaklega tilfinningalega líðan og viðbrögð barna á sjúkrahúsum. Þá kom í ljós að þó svo að líkamlegum bata væri náð voru mörg börn andlega miður sín og óörugg eftir sjúkrahúsvistina.

Fólk í heilbrigðisstéttum víða um heim fór nú að gera sér grein fyrir alvarleika þessa máls og átta sig á því, að þarfir barna á sjúkrahúsum væru þær sömu og þarfir heilbrigðra barna. Enn fremur hefðu börn á sjúkrahúsum sérstaklega mikla þörf fyrir öryggi, en einnig frelsi til að leika sér og fá útrás fyrir sköpunarþörf sína. Þau þörfnuðust uppörvunar og mannlegra samskipta.

Fyrsta þverfaglega dagskráin um þarfir barna á sjúkrahúsum á Íslandi var haldin á norrænu barnalæknaþingi í Reykjavík árið 1973. Þar með var fræinu sáð að hugmyndinni um NOBAB.

Ári síðar var alþjóðlegt barnalæknaþing haldið í Buenos Aires. Að lokinni dagskrá þingsins hittust nokkrir fyrirlesarar frá Norðurlöndunum og undir forystu Ivonny var ákveðið að stofna þyrfti norræn samtök um þarfir barna á sjúkrahúsum.

Árið 1979 á „Ári barnsins” var norræn þverfagleg ráðstefna um þarfir veikra barna haldin í Gautaborg. Þar var stigið fyrsta skrefið að stofnun samtakanna og var undirbúningsstjórn kosin í Gautaborg. Tveir fulltrúar voru frá hverju Norðurlandanna, og voru Helga Hannesdóttir og Sigríður Björnsdóttir fyrstu fulltrúar Íslands. Í Gautaborg var ákveðið að samtökin skyldu halda vörð um þarfir allra veikra barna, ekki eingöngu barna á sjúkrahúsum.

Íslandsdeild norrænu samtakanna var stofnuð í maí 1980. Ísland var fyrsta landið sem tók af skarið og stofnaði eigið félag. Eftir nokkur ár fékk Íslandsdeildin nafnið Umhyggja.

Upphaflegu stofnendur Umhyggju voru fagfólk á barnadeildum Landspítala og Landakotsspítala og var félaginu ætlað að bæta hag barna á sjúkrahúsum og standa vörð um félagsleg réttindi langveikra barna. Smám saman þróaðist starfsemi félagsins og æ fleiri foreldrar gengu í félagið. Stærsta breytingin varð í febrúar 1996 þegar átta foreldrafélög gengu í Umhyggju. Í dag eru félögin orðin 18 talsins.