Reglur Styrktarsjóðs langveikra barna

 1.gr

Umhyggja, félag langveikra barna, hefur stofnað sjóð sem heitir Styrktarsjóður langveikra barna. Heimili og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík.

 2.gr

Stofnfé sjóðsins var gjöf Haraldar Böðvarssonar hf. að upphæð 1.000.000 kr.

 3.gr

Höfuðstóll sjóðsins telst vera stofn, sbr 2.gr. Höfuðstólinn má aldrei skerða.

 4.gr

Tekjur sjóðsins eru:

a)      Vextir og arður af eigum hans.                                                                                                    

b)      Gjafir og áheit sem honum kunna að berast.                                                                           

c)      Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni hans.                                                                 

d)      Aðrar tekjur

Stjórn sjóðsins skal varðveita eignir hans og leitast við að ávaxta sjóðinn á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt, þannig að hann nái að þjóna tilgangi sínum sem best.

5.gr.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja fjölskyldur félagsmanna í aðildarfélögum Umhyggju með fjárframlagi, þegar fjárhagserfiðleika má rekja til veikinda viðkomandi barns. Heimilt er að veita útfarastyrki vegna andláts langveikra barna. Fjölskyldur sem ekki hafa aðgang að öðrum styrktarsjóðum foreldrafélaga langveikra barna, skulu njóta forgangs að styrkjum úr sjóðnum.

Fjölskyldur geta að öllu jöfnu sótt um styrki tvisvar sinnum á fimm ára tímabili og skulu að minnsta kosti líða 12 mánuðir á milli úthlutunar.  Afgreiðslutími er hámark 6 vikur. Læknisvottorð þarf að fylgja umsókn.

Einnig er heimilt að veita styrki úr sjóðnum til verkefna sem unnin eru í þágu langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

 6.gr.

Stjórn sjóðsins skipa þrír einstaklingar og tveir til vara. Stjórn Umhyggju tilnefnir einstaklinga í stjórn sjóðsins.

Tilnefningar skulu gilda í tvö ár í senn. Enginn skal sitja í stjórn sjóðsins lengur en sex ár í senn.

Stjórnin skiptir með sér verkum. Framkvæmdastjóri Umhyggju ber ábyrgð á fjárvörslu sjóðsins.

Stjórnafundir skulu haldnir a.m.k tvisvar á ári og skal til þeirra boðað af formanni. Stjórn sjóðsins skal halda fundargerðabók um ákvarðanir sínar og um hvaðeina sem varðar rekstur sjóðsins.

 7.gr.

Framkvæmdastjóri Umhyggju annast styrkveitingar úr sjóðnum samkvæmt umsókn. Stjórn sjóðsins, í samráði við stjórn Umhyggju, skal setja starfsreglur, þ.m.t. um hámarksfjárhæð styrks og heildarfjárhæð styrkja til hvers einstaklings.   Framkvæmdastjóri skal halda sérstaka gerðarbók um ákvarðanir sínar varðandi styrki og kynna þær stjórn sjóðsins á fundum.

8.gr.

Reiknisár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem ráðinn er af stjórn Umhyggju.

9.gr.

Endurskoðaðir reikningar sjóðsins skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30.júní ár hvert fyrir næstliðið ár.

10.gr.

Skipulagsskrá þessari verður hvorki breytt, né Styrktarsjóður langveikra barna lagður niður, nema með einróma samþykki sjóðstórnar og að fengnu samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Verði sjóðurinn lagður niður skal eigum hans ráðstafað af stjórn Umhyggju, í þágu hagsmuna langveikra barna.

11.gr.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagskrá þessari. Þessi skrá kemur í stað eldri skipulagsskrá fyrir Styrktarsjóð Umhyggju dags. 19.maí 2015. Við staðfestingu sýslumanns fellur hin eldri úr gildi.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1998.